Sport

Sá fyrsti í NHL til að koma út úr skápnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Luke Prokop er fyrsti NHL-leikmaðurinn sem kemur út úr skápnum. Hvorki hefur núspilandi, né fyrrum leikmaður í deildinni gert slíkt.
Luke Prokop er fyrsti NHL-leikmaðurinn sem kemur út úr skápnum. Hvorki hefur núspilandi, né fyrrum leikmaður í deildinni gert slíkt. Marissa Baecker/Getty Images

Luke Prokop, 19 ára gamall íshokkíleikmaður Nashville Predators í bandarísku NHL-deildinni, varð í gær sá fyrsti í sögu deildarinnar til að koma út úr skápnum.

Prokop greindi frá þessu á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann sagði meðal annars: „Þetta hefur verið mikið ferðalag að komast á þennan stað í lífinu, en ég gæti ekki verið ánægðari með þá ákvörðun að koma út,“

„Frá unga aldri hefur mig dreymt um að vera NHL-leikmaður, og ég trúi því að með því að vera ekki í felum og mæta með óbrotið sjálf á svellið muni bæta líkur mínar á að sækjast eftir draumum mínum.“ segir enn fremur í færslu Prokops á Instagram.

Enginn NHL-leikmaður, hvorki á meðal fyrrum leikmanna, né þeirra sem nú eru í deildinni, hefur komið út úr skápnum.

Prokop sagði í viðtali við ESPN að hann hafi átt í vandræðum á síðustu leiktíð og þessi ákvörðun muni hjálpa honum í íþróttinni. Hann hafi tekið ákvörðunina um að koma út í apríl síðastliðnum.

„Ég lá í rúminu eina nóttina, og hafði eytt stefnumótaappi úr símanum mínum í fjórða eða fimmta sinn, og fann til gríðarlegrar gremju því ég gat ekki verið ég sjálfur,“

„Á því augnabliki sagði ég, „nóg er nóg. Ég samþykki sjálfan mig eins og ég er. Ég vil lifa eftir mínu eigin höfði, og taka sjálfan mig í sátt sem samkynhneigðan mann,“.“

Líkt og fram hefur komið er Prokop fyrsti leikmaðurinn í NHL sem kemur út úr skápnum. Hann fetar í fótspor ruðningsmannsins Carls Nassib sem varð fyrr í sumar fyrsti NFL-leikmaðurinn til að taka það skref.

Prokop var valinn af Nashville -liðinu í þriðju umferð nýliðavalsins á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×