Reuters fréttaveitan segir 123 elda hafa logað í Rússlandi í gær og að um 6.500 slökkviliðsmenn berjist við þá bæði á jörðu niðri og í lofti í flugvélum og þyrlum.
Í héraðinu Yakutia hafa rúmlega fimmtán þúsund ferkílómetrar af skóglendi brunnið en héraðið er það sem hefur orðið hvað verst úti í Rússlandi. Höfuðborg héraðsins, Yakutsk, er iðulega kölluð kaldasta borg heims.
Nú er hins vegar mikil hitabylgja að ganga yfir héraðið og hefur það leitt til umfangsmeiri skógarelda en hefðbundið er. Rúm áttatíu prósent héraðsins er skóglendi.
Tass fréttaveitan segir að alls logi 92 skógareldar í Yakutia. Slökkviliðsmenn hafa náð tökum á fimm þeirra. Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur sent flugmenn á svæðið á þyrlum sem koma að slökkvistörfum.