Fótbolti

Kolbeinn spilaði allan leikinn er Dortmund II byrjaði á sigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kolbeinn í æfingaleik með aðalliði Dortmund fyrr í sumar.
Kolbeinn í æfingaleik með aðalliði Dortmund fyrr í sumar. Mareen Meyer/Borussia Dortmund via Getty Images

Kolbeinn Birgir Finnsson spilaði allan leikinn fyrir varalið Dortmund sem hóf tímabilið í 3. deildinni í Þýskalandi á 2-1 útisigri gegn Zwickau í dag. Dortmund lék manni færri síðasta stundarfjórðunginn.

Kolbeinn er 21 árs gamall og er að hefja sitt þriðja tímabil með Dortmund II. Hann er uppalinn í Fylki í Árbæ en fór ungur til Groningen í Hollandi áður en hann færði sig yfir til Brentford á Englandi.

Hann lék hluta sumars 2019 með Fylki á láni frá enska liðinu og var í kjölfarið keyptur yfir til Dortmund hvar hann hefur leikið síðan.

Hann spilaði allan leikinn fyrir Dortmund II í dag en liðið lenti undir strax á þriðju mínútu eftir mark Ronny König fyrir Zwickau. Hollendingurinn ungi Immanuel-Johannes Pherai jafnaði á tólftu mínútu áður en Tobias Raschl skoraði það sem reyndist sigurmark Dortmund á 58. mínútu.

Kolbeinn fer því vel af stað á nýju tímabili í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×