Umfjöllun og viðtöl: KR - Fylkir 4-0 | KR-ingar ekki í neinum vandræðum á heimavelli

Andri Gíslason skrifar
Óskar Örn Hauksson skoraði annað mark KR-inga.
Óskar Örn Hauksson skoraði annað mark KR-inga. Vísir/Vilhelm

KR-ingar lentu ekki í neinum vandræðum þegar Fylkismenn mættu í Vesturbæinn í kvöld. Lokatölur 4-0 sigur heimamanna og sigurinn lyftir KR-ingum upp í þriðja sæti Pepsi Max deildarinnar.

Leikurinn byrjaði frekar rólega og voru það heimamenn sem gjörsamlega einokuðu boltann fyrstu mínúturnar og leyfðu gestunum varla að snerta á honum.

Á 9.mínútu leiksins kom fyrsta markið þegar Arnór Sveinn Aðalsteinsson kom boltanum á Atla Sigurjónsson við vítateigshornið. Atli tekur góða fyrstu snertingu framhjá Daða Ólafssyni áður en hann skrúfar boltann framhjá Aroni Snæ og í fjærhornið. Stórkostlegt mark hjá Atla sem hefur verið gríðarlega öflugur fyrir KR-liðið í sumar.

Eftir þetta komu Fylkismenn ofar á völlinn og náðu að halda boltanum aðeins á milli sín en sköpuðu lítið. Guðmundur Steinn komst næst því að jafna þegar boltinn datt fyrir hann í vítateig KR en skot hans rétt framhjá markinu.

Á 38.mínútu komust KR-ingar í góða skyndisókn þar sem Atli Sigurjónsson rennir boltanum til hliðar á Óskar Örn sem er einn á móti Aroni Snæ í marki Fylkis en hann sér við honum. Frákastið tekur þó Kennie Chopart og hamrar boltanum í átt að markinu í Fylkismann sem stendur á línunni og þaðan hrekkur boltinn af Óskari Erni og í netið.

Staðan var 2-0 þegar Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari leiksins flautaði til hálfleiks og er óhætt að segja að það hafi verið sanngjörn staða.

Síðari hálfleikur var ekki frábrugðinn þeim fyrri en það voru heimamenn sem héldu áfram að stjórna leiknum og skilaði það sér í marki þegar rúmar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

KR-ingar fengu þá aukaspyrnu sem þeir tóku fljótt á Stefán Árna Geirsson sem kom sér í góða stöðu upp við endalínu og átti fasta sendingu fyrir markið. Þar mætti markahrókurinn Kristján Flóki Finnbogason á nærstöngina og potaði boltanum í netið.

Heimamenn héldu áfram að sækja og voru mun líklegri til að bæta við heldur en Fylkismenn að minnka muninn.

Þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði varamaðurinn Ægir Jarl Jónasson gott mark eftir sendingu frá Grétari Snæ Gunnarssyni.

Niðurstaðan 4-0 sigur heimamanna sem spiluðu stórkostlega í kvöld og getur Rúnar Kristinsson verið virkilega ánægður með sitt lið í kvöld.

Af hverju vann KR?

KR-ingar stjórnuðu leiknum frá fyrstu til síðustu mínútu. Þeir spiluðu boltanum vel á milli sín og sköpuðu urmul af færum ásamt því að skora fjögur mörk. Þeir leyfðu Fylkismönnum varla að snerta boltann og hvað þá að skapa sér færi.

Hverjir stóðu upp úr?

Það er hægt að hrósa nánast öllu KR liðinu en framlína KR var virkilega öflug í kvöld. Óskar Örn, Kristján Flóki og Stefán Árni náðu að valda miklum usla í vítateig Fylkismanna og þegar lið skorar fjögur mörk, þá er framlínan að gera eitthvað rétt.

Hvað gekk illa?

Fylkismönnum gekk illa að halda boltanum á milli sín og komust þeir engan veginn í takt við leikinn. Guðmundur Steinn fékk færi til að skora tvívegis en náði ekki að koma sér á blað og í leikjum við lið eins og KR þá þarf að nýta öll þau færi sem bjóðast.

Hvað gerist næst?

Fylkir fær Leikni í heimsókn þriðjudaginn 3.júlí sem gæti orðið afar áhugaverður leikur. KR-ingar heimsækja hins vegar erkióvini sína í Val deginum eftir og get ég fullyrt það að sá leikur verður alvöru skemmtun.

Atli Sveinn: Erum að dúndra boltanum merkingarlaust út í loftið

Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis, var ekki sáttur með leik liðsins í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis var óánægður með sína menn eftir leikinn gegn KR í kvöld.

„Frammistaðan var ekki góð. Við byrjum leikinn sofandi og gefum að okkar mati mark sem er slæmt. Atli fer á vinstri löppina og við eigum að geta lokað því, hann gerir þetta nú vel en á heildina litið var þetta bara ekki nógu gott.“

Fylkismenn byrjuðu leikinn aftarlega á vellinum og fengu mark snemma í andlitið.

„Það sem var verst hjá okkur var að þegar við náum boltanum þá erum við lélegir að halda í hann og erum að dúndra honum merkingarlaust út í loftið. Planið var nú ekki að liggja aftarlega, við ætluðum að reyna að spila út úr pressunni sem KR setti á okkur en við gerðum það bara ekki nógu vel. Þegar maður liggur lágt þá verður maður að halda í boltann þegar maður loksins nær honum og það var einn hlutur sem var bara ekki nógu góður hjá okkur í kvöld.“

Fylkismenn sóttu landsliðsmiðvörðinn Ragnar Sigurðsson fyrr á dögunum og var Atli spurður hvað hann vonast til að Ragnar komi með inn í liðið.

„Meira heldur en gæði og að halda hreinu? Þetta er náttúrulega bara geggjaður liðsstyrkur fyrir okkur, hann er frábær leikmaður og frábær karakter.“

„Við reiknum ekki með því, það er ólíklegt en glugginn er ennþá opinn þannig það gæti eitthvað gerst en það er ekki stefnan.“ sagði Atli Sveinn er hann var spurður hvort þeir ætli að bæta fleiri leikmönnum áður en félagaskiptaglugginn lokast.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira