Enski boltinn

Klopp skilur ekki hvernig Manchester United getur eytt svona miklu í leikmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist þurfa að selja leikmenn til að geta keypt nýja leikmenn til Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist þurfa að selja leikmenn til að geta keypt nýja leikmenn til Liverpool. EPA-EFE/Alex Livesey

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist ekki skilja hvernig erkifjendurnir í Manchester United hafi getað eytt svona stórum upphæðum í nýja leikmenn í sumar. Það kemur honum aftur á móti ekki á óvart að Manchester City, Chelsea og Paris Saint-Germain geti eytt miklu.

United keypti Jadon Sancho frá Borussia Dortmund fyrir 73 milljónir punda og borgaði Real Madrid 34 milljónir punda fyrir franska miðvörðinn Raphael Varane. Þetta bætist ofan á kaup United undanfarin tímabil þar sem liðið hefur eytt miklu meira en Liverpool í nýja leikmenn.

Á blaðamannafundi fyrir fyrsta leik Liverpool á tímabilinu, sem er á móti Norwich á morgun, var Klopp spurður út í eyðslu annarra liða.

„Við þekkjum öll stöðuna hjá Chelsea, City og PSG,“ sagði Jürgen Klopp en hélt svo áfram:

„Það sem United er að gera. Ég veit ekki hvernig þeir fóru að því. Við förum okkar eigin leið og megum eyða þeim peningum sem við fáum inn í félagið. Svoleiðis hefur það alltaf verið,“ sagði Klopp.

„Í ár eyddum við pening áður en við fengum hann inn þegar við keyptum [Ibrahima] Konate. Við urðum að gera það því við viljum ekki taka neina áhættu með að lenda í sömu stöðu og í fyrra,“ sagði Klopp en miðvarðarhallærið fór illa með Liverpool í öllum meiðslunum á síðasta tímabili.

„Það kemur mér samt aldrei á óvart hversu mikla peninga Chelsea, City eða United hafa yfir að ráða. Ég hef verið hérna nógu lengi til að vita að þeir finna alltaf einhverjar lausnir fyrir sig,“ sagði Klopp.

Manchester City setti nýtt breskt met með því að kaupa Jack Grealish frá Aston Villa fyrir hundrað milljónir punda og er líka að eltast við Harry Kane, framherja Tottenham. Chelsea bætti félagsmetið með því að kaupa Romelu Lukaku frá Internazionale fyrir 97,5 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×