Samkvæmt frétt AP varð skjálftinn, sem var 7,2 að stærð, á þrettán kílómetra dýpi tólf kílómetrum suðvestur af eyjunni. Upphaflega var óttast að flóðbylgja gæti fylgt í kjölfarið en sú hætta er að mati bandarísku jarðvísindastofunarinnar liðin hjá, samkvæmt frétt CNN.
Ariel Henry, forsætisráðherra landsins, segist hafa beint viðbragðsaðilum á þau svæði þar sem bæir eru eyðilagðir og spítalar eru að fyllast.
Þá hefur hann lýst yfir eins mánaðar löngu neyðarástandi á Haítí en mun þó ekki óska eftir alþjóðlegri aðstoð fyrr en umfang skemmdanna er komið í ljós.
„Það mikilvægasta er að bjarga sem flestum undan rústum. Við vitum að spítalar, sérstaklega spítalinn í Les Cayes, eru yfirfullir af særðu og beinbrotnu fólki.
Forsætisráðherrann hefur kallað eftir því að Haítíbúar standi saman og séu skipulagðir svo hægt sé að koma í veg fyrir ástand líkt og það sem skapaðist eftir skjálftann árið 2010. Þá var neyðaraðstoð lengi að berast fólkinu í landinu og hátt í 300 þúsund manns létust.
Ástandið á Haítí var ekki gott fyrir skjálftann en heimsfaraldur Covid-19 hefur leikið landið grátt og bólusetningar eru ekki komnar langt á veg.
Þá ríkir mikil óreiða í stjórnmálum landsins eftir að forseti þess, Jovenel Moïse, var ráðinn af dögum fyrr í sumar.