Erlent

Forsetinn farinn úr landi - afganska stjórnin riðar til falls

Snorri Másson skrifar
Ashraf Ghani er sitjandi forseti Afganistan.
Ashraf Ghani er sitjandi forseti Afganistan. Wali Sabawoon/Getty

Ashraf Ghani, sem hefur verið forseti Afganistan frá 2014, hefur samkvæmt afgönskum fjölmiðlum flúið land undan talíbönum, sem hafa komið sér fyrir í Kabúl.

Fréttir bárust af því í morgun að sveitir talíbana hefðu umkringt Kabúl og jafnvel hafið innreið sína í borgina úr öllum áttum. Þannig virtist stefna í átök um þetta síðasta og mikilvægasta vígi stjórnarhersins í Afganistan, en ekki kom til harðvítugra átaka.

Fljótlega var nefnilega haft eftir heimildarmönnum innan afgönsku stjórnarinnar að allt yrði gert til að forðast átök um Kabúl og það virðist hafa falið í sér að yfirvöld afhentu meira og minna talíbönum stjórnartaumana. Innanríkisráðherra talaði þannig um friðsamleg valdaskipti. 

Samkvæmt Tolo News, einum stærsta fjölmiðli í Afganistan, eru valdaskiptin ekki friðsamlegri en svo að Ghani sá sæng sína upp reidda og flúði land. Í sömu frétt er haft eftir heimildarmönnum með tengingar við talíbana að Ghani ætli að segja af sér.

SPIEGEL segir að Ghani sé á leið til Tadjíkistan. Á sama hátt segir BBC frá því að Amrullah Saleh varaforseti sé einnig flúinn og að þrýst sé á stjórnina að segja af sér.

Afganir örvæntingafullir um að komast á brott úr Kabúl í gær. Ástandið þar er langt í frá öruggt, einkum fyrir þá sem hafa verið hliðhollir stjórninni undanfarin ár.Paula Bronstein/Getty Images

Á meðal skilyrða fyrir valdaskiptunum eru að talíbanar leyfa fjölda fólks sem er að reyna að yfirgefa borgina að gera það óáreitt. Þar á meðal er fjöldi fulltrúa bandarískra stjórnvalda en verið er að ferja hóp þeirra með þyrlu af sendiráðsþakinu. Slík örþrifaráð minna marga óþægilega á endalok Víetnamstríðsins þegar Bandaríkjamenn töpuðu Saígon árið 1975 og eru margir minnugir háðungarinnar sem þau örvæntingarfullu málalok höfðu í för með sér.

Í tilfelli Afganistan hefur atburðarásin alls ekki verið eins og bjartsýnustu Bandaríkjamenn sáu fyrir sér, að afganski herinn hefði í fullu tré við talíbanann, heldur hafa talíbanar, nú aðeins fjórum mánuðum eftir að Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti að senn yrðu allir bandarískir hermenn horfnir af afganskri grundu, meira og minna tekið völdin í öllu landinu. 

Undanfarið hefur Biden varið ákvörðun sína í viðtölum við fjölmiðla og sagt að óháð framvindunni núna hafi legið fyrir að endalaus viðvera Bandaríkjamanna í Afganistan yrði ekki réttlætt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×