Fótbolti

Blikakonur nær tugum milljóna og desemberleikjum

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik á fyrir höndum úrslitaleik gegn heimaliði Gintra í Litháen á morgun klukkan 15.
Breiðablik á fyrir höndum úrslitaleik gegn heimaliði Gintra í Litháen á morgun klukkan 15. vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks í fótbolta kvenna eiga ágæta möguleika á því að verða í hópi 16 bestu liða Evrópu sem leika í nýrri riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu frá október fram í desember. Það myndi skila félaginu tugmilljónum króna í kassann.

Blikakonur eru nú staddar í Litháen þar sem fyrri hluti undankeppni Meistaradeildarinnar fer fram. Í þessum fyrri hluta þurfa þær að slá út tvo andstæðinga. Fyrra verkefnið var þeim auðvelt þegar þær unnu KÍ Klaksvík frá Færeyjum, 7-0, á miðvikudag.

Seinna verkefnið í Litháen felst í að vinna heimakonur í Gintra á morgun klukkan 15. Lið Gintra hefur leikið í undankeppni Meistaradeildarinnar mörg síðustu ár og komst í 32-liða úrslit fyrir þremur árum, og 16-liða úrslit fyrir fjórum árum, en Blikakonur ættu að eiga fína möguleika á að komast áfram.

Leikur Breiðabliks og Gintra er í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport 2 klukkan 15 á morgun.

Yrðu í efri styrkleikaflokki

Með sigri á Gintra þyrfti Breiðablik að slá út einn andstæðing til viðbótar, í tveggja leikja einvígi, til að komast í riðlakeppnina. Leikirnir í þeim einvígum fara fram 31. ágúst eða 1. september og 8. eða 9. september.

Dregið verður í þau einvígi á sunnudaginn og sigurliðið úr leik Breiðabliks og Gintra verður í efri styrkleikaflokki. Það eykur svo sannarlega á líkurnar á því að Breiðablik komist áfram og í sjálfa riðlakeppnina með allra bestu liðum Evrópu.

Að lágmarki 60 milljónir og leikið fram í desember

Knattspyrnusamband Evrópu hefur umbylt Meistaradeild kvenna. Ekki aðeins er nú leikið í riðlakeppni á haustin, líkt og lengi hefur þekkst í Meistaradeild karla, heldur er mun hærra verðlaunafé í boði en áður.

Ef Breiðablik kemst í riðlakeppnina fær liðið þannig að lágmarki 400.000 evrur, jafnvirði 60 milljóna króna, jafnvel þó að liðið myndi tapa öllum sex leikjum sínum þar. Í riðlakeppninni er leikið í fjögurra liða riðlum og komast tvö efstu lið hvers riðils áfram í 8-liða úrslitin.

Eins og Vísir hefur áður greint frá er ólíklegt að Breiðablik fengi að spila á heimavelli sínum í Kópavogi í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Samkvæmt reglum keppninnar er Laugardalsvöllur nefnilega eini völlur landsins með nægilega sterka flóðlýsingu fyrir leiki á svo háu stigi. Hins vegar er óvíst að hægt sé að spila á Laugardalsvelli í nóvember og desember, vegna veðurfars, og því ekki öruggt að Blikakonur geti leikið heimaleiki sína á Íslandi komist þær í riðlakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×