Ágúst Halldórsson er hænsnabóndinn í Vestmannaeyjum með stóru H-i. Hann er með fjórar hænur í flottum hænsnakofa sem hann byggði og góðu útisvæði fyrir hænurnar. Þær hafa rabarbara til að éta og svo fá þær hænsnafóður hjá honum. Það er engin hani í hópnum enda bannað að hafa hana í Vestmannaeyjum.
„Þær heita Páley, Guðbjörg Matt, Íris og Jakobína, skírðar í höfuðið á kraftakonum í Eyjum. Það er líka gaman að fylgjast með atferlinu, hænur eiga til að hópa sig saman,“ segir Ágúst. Hann sagði frá sögunni á bak við nöfnin í Facebook-færslu í vor.
Hænan Guðbjörg heitir eftir útgerðarkonunni Guðbjörgu Matthíasdóttur. Hænan Jakobína er nefnd í höfuðuð á Jakobínu Guðlaugsdóttur, sem var margfaldur Vestmannaeyjameistari í golfi. Hænan Páley var nefnd til heiðurs Páleyjar Borgþórsdóttur, sem var lögreglustjóri í Vestmannaeyjum en er nú lögreglustjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Hænan Íris er svo nefnd er núverandi bæjarstjóra Vestmannaeyja, Írisi Róbertsdóttur.
„Þetta er svipað eins og í pólitíkinni. Ég sá að Páley og Guðbjörg Matt vildu ekki hafa Írisi fyrst en núna eru þær byrjaðar að vera saman aftur og ég sé að Jakobína er aðeins komin út úr hópnum. Hvort þetta sé eitthvað í sambandi við komandi kosningar, maður veit ekki hvað er í gangi,“ segir Ágúst og glottir út í annað.

Og þú varst búin að suða lengi um að fá hænur?
„Já, það var ekki fyrr en konan mín, við eigum þrjú börn saman, hún vildi láta taka mig úr sambandi, þá fékk ég það í gegn, ef ég myndi láta taka mig úr sambandi fengi ég hænur í garðinn. Þannig að nú er ég með hænur og geldur,“ segir Ágúst hlæjandi.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar er stolt að eiga nöfnu, sem hænu.
„Já, við deilum saman sama háralit og svolítið sama stíl en ég á reyndar eftir að leggja aðeins á mig til að ná þessum hanakambi en annars er ég rosalega ánægð með nöfnu mína. Þetta er skemmtilegt hjá Ágústi, hann vill geta gert grín að okkur, hann tekur myndir og segir að við séu sloppnar úr búrinu hjá honum og svona, hann hefur gaman af því. Við tökum þessu allar létt og höfum jafn gaman af þessu og hann,“ segir Íris