Mál kvennanna hafa komið inn á borð lögmannsstofunnar Sævars Þórs og partners frá því í september í fyrra; sum eru nokkurra ára gömul en önnur nýrri, þau nýjustu síðan í fyrra. Þá eru málin misalvarleg en eitt þeirra varðar, að sögn lögmanns, konu sem eftir mánaðabið komst loks í skimun sem sýndi ekkert óeðlilegt.
Konan hafi verið ósátt þar sem hnúður í brjósti hafi farið stækkandi - en henni hafi þá ítrekað verið synjað um sérskoðun þar sem hún væri ekki nógu gömul. Að endingu hafi hún komist í skoðun að kröfu heimilislæknis.
„En núna var að koma í ljós að hún er með brjóstakrabbamein og fjögur mein í öðru brjósti og stærsta er sjö sentímetrar að stærð og komið í eitla. Hún er á næstu dögum á leið í brjóstnám,“ segir Hilma Ósk Hilmarsdóttir, lögmaður.
Drep eftir leka í sílíkonpúða
Önnur kona hafi leitað heilbrigðisþjónustu vegna brjóstakrabbameinseinkenna í fyrra en verið vísað frá vegna Covid-lokana.
„Það dróst á langinn að hún fékk að komast að til læknis og fékk þá viðeigandi uppvinnslu og þá kemur í ljós að hún er komin með brjóstakrabbamein sem hafði dreift sér.“
Þriðja konan hafi farið í sérskoðun vegna gruns um brjóstakrabbamein. Framkvæmd hafi verið ástunga á brjósti en síðar komið sýking - sem valdið hafi miklum skaða.
„Þá kom í ljós að læknirinn hafði stungið á sílikonpúðann sem hafði þá vætanlega farið að leka og myndað þetta drep í brjóstinu,“ segir Hilma.
Konur sem leiti til þeirra á stofunni finni fyrir óöryggi.
„Það er ekki hægt að svara þessu á annan hátt en bara það að konur treysta ekki kerfinu,“ segir Hilma.
Kröfurnar eru ýmist gagnvart leitarstöð eða Landspítala en spítalinn kvaðst í dag ekki geta veitt viðbrögð vegna einstakra mála. Þá hefur fréttastofa sent embætti landlæknis fyrirspurn vegna málsins.