Enski boltinn

Solskjær um mark Southampton: „100% brot“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Solskjær vildi aukaspyrnu í marki Southampton en kallaði þó líka eftir betri varnarleik frá Fred.
Solskjær vildi aukaspyrnu í marki Southampton en kallaði þó líka eftir betri varnarleik frá Fred. EPA-EFE/Kacper Pempel / POOL

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Manchester United, og Mason Greenwood markaskorari liðsins í 1-1 jafntefli við Southampton vildu báðir fá aukaspyrnu í aðdraganga marks Southampton í leiknum.

Solskjær var til viðtals eftir leik þar sem hann sagði að brotið hefði verið á Bruno Fernandes í aðdragandanum. Fernandes var æfur eftir markið þar sem hann lét aðstoðardómara heyra það áður en hann las yfir Craig Pawson, dómara leiksins.

Solskjær segir að þrátt fyrir brotið hafi Brasilíumaðurinn Fred einnig átt að gera betur er hann varðist Che Adams. Adams átti skot sem fór af Fred í markið og var skráð sem sjálfsmark á þann brasilíska.

„Þetta var 100% brot en Fred hefði ekki átt að setja fótinn svona út, hann átti að verjast betur,“ sagði Solskjær í viðtali eftir leik.

Mason Greenwood, markaskorari United í leiknum, vildi einnig fá aukaspyrnu.

„Mér fannst vera farið í gegnum bakið á honum. Mér fannst þetta vera brot en ákvörðunin liggur hjá dómaranum og við getum ekki dvalið við það. Ég skil að menn dæmi minna til að láta leikinn fljóta sem er góð hugmynd, en ef það er brot þarf að dæma brot.“ sagði Greenwood.

Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, talaði á svipuðum nótum í gær þar sem hann var ósáttur við hversu mikið lið Burnley komst upp með gegn sínu liði til að viðhalda flæði leiksins.

Manchester United er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina, en liðið vann 5-1 sigur á Leeds United í fyrstu umferð. Southampton er með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×