Enski boltinn

Miðju­maður Spánar­meistara Atlético orðaður við Man Utd og Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Hleypið mér út úr þessu partýi,“ er Saúl eflaust að hugsa hér.
„Hleypið mér út úr þessu partýi,“ er Saúl eflaust að hugsa hér. Denis Doyle/Getty Images

Það virðist nær öruggt að Saúl Ñíguez, miðjumaður Spánarmeistara Atlético Madríd, yfirgefi félagið áður en félagaskiptiglugginn lokar í Evrópu þann 2. september. Saúl er sterklega orðaður við bæði Manchester United og Chelsea.

Hinn 26 ára gamli Saúl hefur verið orðaður frá Atlético í sumar og England alltaf talið líklegasti áfangastaðurinn. Nú hefur miðjumaðurinn sagt forráðamönnum Spánarmeistaranna að hann vilji komast frá liðinu áður en glugginn loki.

Talið er að Evrópumeistarar Chelsea og Man United séu mjög áhugasöm. Síðarnefnda liðið hefur fylgst með leikmanninum og gaf hann til kynna að hann gæti verið að skipta um félag fyrir rúmu ári síðan. Allt kom þó fyrir ekki.

Ensku félögin vilja bæði fá leikmanninn á láni út tímabilið og hafa svo forkaupsrétt á honum næsta sumar. Talið er að hann myndi þá kosta milli 35 til 40 milljónir evra en einnig þyrftu félögin að punga út nokkrum milljónum til að fá hann á láni.

Hjá Man Utd ætti Saúl að styrkja miðsvæði liðsins enn frekar og líklega að sjá til þess að Nemanja Matic byrji ekki fleiri leiki það sem eftir lifir tímabils. Hjá Chelsea er aðeins flóknara að lesa í aðstæður en mögulega ætti Saúl að veita N‘Golo Kante samkeppni við hlið Jorginho eða einfaldlega taka sæti annars þeirra í byrjunarliðinu.

Saúl hefur verið í lykilhlutverki hjá Atlético undanfarin ár og varð Spánarmeistari með liðinu á síðustu leiktíð. Þá á hann að baki 19 A-landsleiki fyrir Spán sem og fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×