Sundkappinn Róbert Ísak Jónsson bætti eigið Íslandsmet tvívegis á innan við sólahring er hann keppti í undanrásum og svo úrslitum í 100 metra flugsundi á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, sem nú fer fram í Tókýó.
Róbert Ísak flaug inn í úrslitin með frábæru sundi í nótt og keppti til úrslita nú í morgunsárið í Tokýó Aquatic Center í japönsku höfuðborginni. Þar synti hann enn á ný á nýju Íslandsmeti.
Eftir að hafa synt á 58,34 sekúndum í undanrásunum gerði Róbert Ísak gott betur og synti á 58,06 í úrslitunum. Hann bætti þar með eigið Íslandsmet um 28/100 úr sekúndu. Til að gera afrekið enn merkilegra þá var millitími Róberts Ísaks eftir 50 metra 26,56 sekúndur sem er einnig nýtt Íslandsmet.
Róbert Ísak, eða Hákarlinn eins og hann er kallaður, endaði 6. í úrslitasundinu. Gabriel Bandeira frá Brasilíu kom fyrstur í mark.
Hákarlinn í 6.sæti með tvö Íslandsmet í 50 og 100 flugi S14 #TeamIceland
— ÍF (@ifsportisl) August 25, 2021
Til hamingju Róbert. pic.twitter.com/GEIqXUlmiw
Róbert Ísak syndir næst í undanrásum í 100 metra bringusundi á sunnudaginn, kemur, þann 29. ágúst. Síðasta grein hans á mótinu er svo 31. ágúst þegar hann syndir í undanrásum 200 metra fjórsunds.