Enski boltinn

Tuttugu ár frá á­kvörðuninni sem Sir Alex sér hvað mest eftir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jaap Stam og Sir Alex Ferguson þegar allt lék í lyndi.
Jaap Stam og Sir Alex Ferguson þegar allt lék í lyndi. Dave Kendall/Getty Images

Sir Alex Ferguson gerði ekki mörg mistök er hann vann titil eftir titil með Manchester United. Í dag eru hins vegar 20 ár frá þeirri ákvörðun sem Skotinn sér hvað mest eftir á 26 ára stjóratíð sinni í Manchester-borg.

Sir Alex telur að ákvörðunin sem var tekin þann 26. ágúst 2001 hafi gefið Arsene Wenger og Arsenal-liði hans yfirhöndina í ensku úrvalsdeildinni. Síðan mætti José Mourinho til Englands og vann deildina tvö ár í röð með Chelsea. 

Fyrir 20 árum, upp á dag, var hollenski miðvörðurinn Jaap Stam ekki í byrjunarliði Man United er liðið heimsótti Aston Villa á Villa Park. Stam hafði verið einn besti miðvörður heims frá því hann gekk í raðir Man Utd árið 1999 en árið 2001 gaf hann út ævisögu þar sem hann opnaði sig varðandi hluti sem hann hefði betur sleppt.

Stam gaf til kynna að Sir Alex hefði talað við hann þegar hann var enn samningsbundinn PSV í Hollandi. Ef það var ekki nóg til að reita Sir Alex til reiði þá sagði Stam líka að þjálfarinn hefði hvatt leikmenn til að dýfa sér.

„Það var komið á þann stað að hann sagði okkur að reyna ekki að standa í lappirnar ef við værum inn í vítateig og fyndum fyrir minnstu snertingu. Hann vill að við hermum eftir þeim liðum sem við mætum í Evrópu og fara niður til að sækja vítaspyrnur,“ skrifaði Stam í bók sinni, Head to Head.

Fyrir leikinn gegn Villa sagði Ferguson að hann hefði samþykkt tilboð Lazio í Stam og það væri undir leikmanninum komið hvort hann færi þangað eða ekki. Þá hafði Sir Alex þegar samið við reynsluboltann Laurent Blanc um að fylla skarðið sem Stam myndi skilja eftir sig.

Jaap Stam í leik með Lazio gegn Juventus.EPA/ANTONIO SCALISE

„Við vitum að Wes Brown verður frábær leikmaður. Að mínu mati verður hann besti miðvörður landsins og hann fær nú tækifæri til að sýna hvað hann getur,“ sagði Sir Alex einnig.

Stam og Sir Alex lenti saman á æfingu og miðvörðurinn fór heim í fússi. Ritari Sir Alex hringdi í hann að æfingu lokinni og rétti Ferguson svo símann. Þjálfarinn vildi vita hvar Stam væri niðurkominn. Eftir að hafa sagst vera á bensínstöð rétt hjá heimili sínu sagði Sir Alex honum að vera þar því hann væri á leiðinni.

„Þegar hann kom á bensínstöðina lagði hann bílnum sínum og kom inn í bíl til mín. Hann sagði mér að ég þyrfti að skipta um lið. Svo bað hann mig um að fara til Lazio, eins fljótt og hægt væri. Ég samþykkti það á staðnum.“

Stam vann ensku úrvalsdeildina öll þrjú tímabilin sín í Manchester ásamt því að vera hluti af hinu fræga 1999-liði sem vann þrennuna eftirsóttu. Eftir að hann fór til Lazio átti Man Utd hins vegar erfitt uppdráttar. Liðið vann ekki deildina næstu þrjú tímabil.

Stam var einkar sigursæll þau þrjú ár sem hann spilaði með Manchester United.Getty Images

Það var ekki fyrr en tólf árum síðar, árið 2013, sem Ferguson viðurkenndi að hafa gert mistök þegar hann losaði sig við Stam.

„Þegar ég hugsa um vonbrigði þá hugsa ég um Jaap Stam. Ég gerði slæm mistök þar,“ sagði Ferguson sem gerði ekki mörg mistök á sínum 26 árum hjá Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×