Fótbolti

Alfreð á bekknum í stórtapi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alfreð er að ná sér eftir meiðsli en kom ekki við sögu í tapi dagsins.
Alfreð er að ná sér eftir meiðsli en kom ekki við sögu í tapi dagsins. Thomas Hiermayer/DeFodi Images via Getty Images

Alfreð Finnbogason sat allan leikinn á varamannabekk Augsburgar sem tapaði 4-1 fyrir Bayer Leverkusen í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Hann kom aftur inn í leikmannahóp liðsins eftir meiðsli.

Alfreð hefur verið plagaður af meiðslum undanfarin misseri en virtist kominn í gott stand fyrir yfirstandandi leiktíð. Hann varð hins vegar fyrir hörkutæklingu snemma móts sem tók hann úr leik síðustu helgi en hann sneri aftur í leikmannahóp Augsburgar í dag.

Hann kom þó ekki við sögu er Bayer Leverkusen gerði góða ferið til Augsburgar. Leverkusen komst 2-0 yfir eftir stundarfjórðungsleik eftir sjálfsmörk frá bæði Iago og Florian Niederlechner, leikmönnum Augsburgar.

Niederlechner lagaði stöðuna með marki fyrir hálfleik en gestirnir leiddu 2-1 í hléi. Þannig stóð allt fram á 75. mínútu þegar Patrik Schick skoraði þriðja mark Leverkusen og Florian Wirtz innsiglaði 4-1 sigur liðsins sex mínútum síðar.

Mark Niederlechner var það fyrsta sem Augsburg skorar í deildinni en liðið er með eitt stig eftir þrjá leiki, í fallsæti með markatöluna 1-8. Leverkusen er á toppi deildarinnar ásamt Freiburg með sjö stig.

Freiburg vann 3-2 útisigur á Stuttgart til að deila toppsætinu en í öðrum leikjum dagsins vann Köln 2-1 sigur á Bochum, Mainz vann Greuter Furth 3-0 og þá skildu Arminia Bielefeld og Eintracht Frankfurt jöfn 1-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×