Enski boltinn

Jökull hélt hreinu í sterkum sigri | Jón Daði enn utan hóps

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jökull og félagar unnu sterkt lið Sheffield Wednesday í dag.
Jökull og félagar unnu sterkt lið Sheffield Wednesday í dag. Joe Prior/Visionhaus

Jökull Andrésson hélt hreinu er lið hans Morecambe vann sterkan 1-0 sigur á Sheffield Wednesday í ensku C-deildinni í fótbolta í dag. Jón Daði Böðvarsson er enn utan hóps hjá Millwall.

Sheffield Wednesday féll í vor úr B-deildinni og er fyrirfram talið á meðal betri liða í C-deildinni. Liðið var með tíu stig fyrir leik dagsins og hafði ekki tapað leik. Morecambe sem eru einnig nýliðar, eftir að hafa komið upp úr D-deildinni, gerðu sér hins vegar lítið fyrir og skelltu Wednesday 1-0. Dennis Adeniran skoraði sjálfsmark sem tryggði Morecambe sigur.

Liðið er með sjö stig í 14. sæti deildarinnar en Sheffield er með tíu stig í öðri sæti, jafnt fimm öðrum liðum að stigum. Sunderland er á toppi deildarinnar með tólf stig.

Millwall hafði betur í slag Íslendingaliðanna

Í B-deildinni vann Millwall 2-1 sigur á Blackpool. Blackpool komst 1-0 yfir á 56. mínútu þrátt fyrir að vera manni færri en Callum Connolly fékk rautt spjald eftir aðeins 14 mínútna leik. Shayne Lavery skoraði mark Blackpool en sjö mínútum eftir markið jafnaði Jed Wallace fyrir Millwall.

Wallace lagði þá upp sigurmark liðsins á 90. mínútu sem miðvörðurinn Jake Cooper skoraði. Um er að ræða fyrsta sigur Millwall á tímabilinu en liðið er með fimm stig í 17. sæti. Blackpool er með tvö stig í 22. sæti, efsta fallsæti deildarinnar.

Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Millwall frekar en í öðrum leikjum liðsins til þessa. Daníel Leó Grétarsson sat allan tímann á varamannabekk Blackpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×