Lífið

Barnaleikarinn Matthew Mindler fannst látinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Matthew Mindler árið 2011 við frumsýninguna á Our Idiot Brother. Hann var þá níu ára gamall.
Matthew Mindler árið 2011 við frumsýninguna á Our Idiot Brother. Hann var þá níu ára gamall. Getty/Dimitrios Kambouris

Barnaleikarinn Matthew Mindler fannst látinn á laugardag, nítján ára að aldri. Mindler er þekktastur fyrir að hafa leikið við hlið Paul Rudd, Elizabeth Banks og Zooey Deschanel í gamanmyndinni Our Idiot Brother sem kom út árið 2011.

Mindler var fyrsta árs nemi við Millersville-háskólann í Pennsylvaniu en leit að honum hafði staðið yfir frá því á fimmtudag. Fannst lík hans skammt frá skólasvæðinu.

Þetta kemur fram í frétt Variety þar sem vísað er í tölvupóst frá stjórnendum skólans. Ekkert hefur verið gefið upp um mögulega dánarorsök eða hvort um saknæmt athæfi hafi væri að ræða.

Mindler lék einnig í sjónvarpsmyndinni Chad: An American Boy sem kom út árið 2016 og þætti í sjónvarpsþáttaröðinni As the World Turns frá 2009.

Þá hafði hann meðal annars sést í spjallþætti David Letterman og Last Week Tonight With John Oliver.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×