Samkvæmt héraðsmiðlinum Wlox var fyrst flogið í gegnum Ídu á fimmtudaginn. Sú ferð skilaði þeim niðurstöðum að Ída hefði náð styrk fellibyls.
Í gær voru svo farnar tvær ferðir í auga Ídu, þegar fellibylurinn náði landi í Louisiana.
Hér að neðan má sjá myndbönd og myndir sem teknar voru í þeim ferðum.
Ída var fjórða stigs fellibylur þegar hún gekk á land. Enn sem komið er hafa litlar upplýsingar borist um tjón vegna fellibyljarins en New Orleans missti rafmagn í nótt. Þá hafa íbúar verið varaðir við flóðum og er björgunarstarf að hefjast.
Ída hefur þegar misst mikinn kraft og er búist við því að sú þróun muni halda áfram. Ída er nú yfir Mississippi og fylgir mikil rigning óveðrinu.