Íslenski boltinn

ÍTF krefst þess að framkvæmdastjóri og stjórn KSÍ víki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ. vísir/egill

Stjórn Íslensks toppfótbolta, ÍTF, krefst þess að Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, og stjórn sambandsins stígi frá borði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.

Jafnramt vill ÍTF að boðað verði til auka ársþings til að endurheimta traust innan knattspyrnuhreyfingarinnar og almennings til KSÍ. Þar eigi að kjósa bráðabirgðastjórn sem muni sitja fram að næsta ársþingi í febrúar 2022. Á fundi KSÍ í gær var rætt um að boða til auka ársþings en engin formleg tillaga var lögð fram.

ÍTF fundaði í gærkvöldi þar sem farið var yfir atburði helgarinnar og yfirlýsingu stjórnar KSÍ. Mat ÍTF er að KSÍ hafi gengið alltof skammt og nauðsynlegt sé að framkvæmdastjóri og stjórn axli ábyrgð.

Framkvæmdastjóri og stór hluti stjórnar hafi setið lengi, beri ábyrgð á þeim málum sem til umfjöllunar hafa verið undanfarna daga og séu ófær um að leiða vinnu við laga það sem aflaga hefur farið.

Yfirlýsing ÍTF

Formannafundur ÍTF um málefni KSÍ var haldinn að kvöldi 29. ágúst 2021

Á fundinum fór stjórn ÍTF yfir atburði helgarinnar og yfirlýsingu stjórnar KSÍ sem send var út 29. ágúst. Það var samhljóma niðurstaða fundarins að yfirlýsing KSÍ gangi allt of skammt og nauðsynlegt sé að framkvæmdastjóri og stjórn axli sameiginlega ábyrgð.

Með það fyrir augum að endurbyggja traust innan knattspyrnuhreyfingarinnar og almennings gagnvart KSÍ er það mat ÍTF að boða þurfi til auka ársþings samkvæmt lögum KSÍ. Þar sem kosin verður bráðabirgðastjórn sem situr fram að næsta ársþingi sem haldið verður í febrúar 2022. Framkvæmdastjóri KSÍ og hluti stjórnar hefur setið lengi og í ljósi stöðu sinnar bera þau ábyrgð á þeim málum sem til umfjöllunar hafa verið síðustu daga. Knattspyrnuhreyfingin getur ekki samþykkt að núverandi stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri sambandsins muni leiða vinnu við að lagfæra þá hluti sem farið hafa aflaga og skoða frá grunni þá menningu sem við lýði er innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Stjórn ÍTF

Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ eftir mikil fundarhöld um helgina. Stjórn sambandsins ákvað hins vegar að sitja áfram og Gísli Gíslason og Borghildur Sigurðardóttir, varaformenn KSÍ, gegna störfum formanns á meðan.

Í samtali við Bítið á Bylgjunni sagði Borghildur að ekki hafi verið möguleiki á því að öll stjórnin myndi hætta. Þá yrði KSÍ óstarfhæft.

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, á sæti í stjórn ÍTF og sagði að þar á bæ ríkti mikil óánægja með hvernig KSÍ hafi tekið á málunum.

„Í stórum dráttum finnst fólki ekki nógu langt gengið og er ósátt við viðbrögðin sem komu frá KSÍ um helgina. Fólki finnst að meira þurfi að gera. Sú forysta sem er í dag er rúin trausti og það þarf að taka meira til að hægt að sé að halda áfram og unnið aftur traust hjá hreyfingunni og samfélaginu. Það þarf að hreinsa meira til en að láta Guðna einan bera þennan kross,“ sagði Sævar við Vísi í morgun.

Framundan eru þrír leikir hjá íslenska karlalandsliðinu í undankeppni HM 2022, gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi.

Kolbeinn Sigþórsson var tekinn út úr landsliðshópnum samkvæmt ákvörðun stjórnar KSÍ. Rúnar Már Sigurjónsson dró sig sjálfur úr hópnum og eru tvær ástæður gefnar fyrir því í yfirlýsingu KSÍ, meiðsli og persónulegar ástæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×