Enski boltinn

Rifist um argentínsku landsliðsmennina | Gætu misst af tveimur leikjum í deildinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Romero og Lo Celso gætu misst af þremur leikjum Tottenham.
Romero og Lo Celso gætu misst af þremur leikjum Tottenham. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Tottenham Hotspur og Aston Villa eiga í deilum við argentínska knattspyrnusambandið vegna leikmanna liðanna sem eru í landsliðshópi Argentínu. Leikmennirnir eiga á hættu að missa af næstu tveimur deildarleikjum með liðum sínum.

Enska úrvalsdeildin, í samráði við félög í deildinni, tók þá ákvörðun fyrir yfirstandandi landsleikjaglugga að hleypa engum leikmönnum á svokölluð hættusvæði vegna kórónuveirufaraldursins. Þannig eru engir leikmenn úr deildinni í brasilíska landsliðshópnum en smitfjöldi er enn mikill í Suður-Ameríku.

Argentínumönnunum Emiliano Buendía og Emiliano Martínez, úr Aston Villa, og Cristian Romero og Giovani Lo Celso, úr Tottenham, var þó hleypt af félögum sínum í landsliðshópinn, en aðeins ef þeir leikmenn myndu snúa til baka eftir stórleik Argentínu við Brasilíu á sunnudagskvöld.

Kannast ekki við slíkt samkomulag

Lionel Scaloni stýrði Argentínumönnum til Suður-Ameríkutitils í sumar.Gustavo Pagano/Getty Images

Lionel Scaloni, þjálfari argentínska liðsins, segist þó ekkert kannast við slíkt samkomulag og segir leikmennina verða með gegn Bólivíu næsta fimmtudag.

„Við gáfum út leikmannalista fyrir þessa þrjá leiki og það er enginn vafi um það,“ sagði Scaloni eftir 3-1 sigur Argentínu á Venesúela á fimmtudaginn var.

„Leikmennirnir munu spila alla þrjá leikina. Félögin neituðu okkur aldrei um það. Við ræddum við félögin og komust að þeirri niðurstöðu og þeir yrðu að koma.“

Mikið undir hjá félögunum

Martínez er lykilmaður hjá Aston Villa, enda aðalmarkvörður félagsins. Liðsfélagi hans Buendía varð í sumar dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Það munar því um minna.Catherine Ivill/Getty Images

Leikmennirnir fjórir munu þurfa að fara í tíu daga einangrun eftir komuna til Bretlands áður en þeir geta hafið æfingar með liðsfélögum sínum á ný. Ljóst er að Romero og Lo Celso munu missa af leik Tottenham við Crystal Palace þarnæstu helgi og að Buendía og Martínez spili ekki gegn Chelsea sömu helgi.

Fari hins vegar svo að leikmennirnir komi ekki til Bretlands fyrr en eftir leikinn við Bólivíu á fimmtudag fjölgar leikjunum sem þeir missa af.

Lo Celso og Romero myndu þá missa af leik við Rennes í Evrópudeildinni og leik Tottenham við Chelsea helgina eftir. Villa-leikmennirnir myndu missa af leik við Everton auk þess við Chelsea helgina áður.

Samkvæmt Sky Sports halda félögin sig við það að leikmennirnir snúi aftur eftir leikinn við Brasilíu og að þeir komi til Englands strax eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×