Með lögunum, sem kölluð eru „hjartsláttarlög“, er þungunarrof bannað eftir að „hjartsláttur“ fósturs er greinanlegur, sem er í kringum sjöttu viku meðgöngu. Það er áður en flestar konur átta sig á því að þær eru óléttar.
Kristín Gestsdóttir hefur búið í Houston í Texas ásamt eiginmanni sínum, Paul Evans, og tveimur dætrum, Holly Lilju og Kate Ísafold, í tíu ár.
„Maður er náttúrulega í hálfgerðu sjokki, þetta kom svo fljótt að og það eru búin að vera svo mörg lög og þau eru að vissu leyti öll tengd,“ segir Kristín og vísar þar til þess að reynt hafi verið að koma á sambærilegum lögum í öðrum ríkjum en alríkisdómstólar fellt þau úr gildi - þar til nú í vikunni. Repúblikanar í Texas sömdu lögin enda sérstaklega til að gera alríkisdómstólum erfitt að stöðva gildistöku þeirra.
„En þetta þýðir náttúrulega að það er búið að banna fóstureyðingar í Texas,“ segir Kristín.
Hún bendir á að þeir Texas-búar sem tilkynna þungunarrof geti átt rétt á umbun að jafnvirði 1,3 milljón íslenskra króna.
„Þeir eru búnir að setja upp vefsíðu þar sem þú getur beðið um að kæra nágranna þinn sem vill fara í fóstureyðingu eða hefur farið [í fóstureyðingu],“ segir Kristín.
„En maður hefur áhyggjur af því að þetta færist yfir á svarta markaðinn, hvernig á maður að fá fóstureyðingu? Og svo er heilbrigðiskerfið eins og það er, þú þarft að eiga peninga til að geta farið til læknis. Það er eiginlega það sem maður hræðist mest. Þú sérð hvað fólk getur orðið reitt yfir þessu, og mínar stelpur eru akkúrat að koma á þann aldur, hver veit þær gætu þurft á þessu að halda?“
Kristín lýsir því að gjá hafi myndast milli repúblikana sem settu lögin og almennings í Texas.
„Meirihlutinn er á móti þessu þegar þú spyrð almenning. Ég hef ekki hitt neina konu sem eru með þessu, meira að segja kaþólskt trúaðar konur.“