„Staðan er sú að við bíðum enn eftir að sjá hlaupvatn í ánni,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við fréttastofu í morgun. „Það er ekki komið að okkar fyrsta vatnshæðamæli í ánni, sem er við Sveinstind. En það má búast við því að hlaupvatnsins verði vart á allra næstu tímum.“
Salóme Jórunn segir að svo megi gera ráð fyrir að hlaupið nái hámarki á einum og hálfum sólarhring.
„Það hefur miðað við það áður að frá því að hlaupsins verður vart við Sveinstind og þangað til að það nær hámarki við Eldvatn eru um 48 tímar. Þetta er langur atburður í sjálfu sér, miðað við marga aðra atburði sem maður hefur tekið eftir.“
Hvernig metið þið þetta hlaup miðað við síðustu?
„Við erum að gera ráð fyrir því að þetta hlaup verði á pari við það sem varð 2018. Það er töluvert vatn í ánni eftir hlaupið úr vestari katlinum, en við erum að gera ráð fyrir að hlaupið verði á pari við hlaupið 2018 sem var þó minna en hlaupið 2015.“
Salóme Jórinn segist gera ráð fyrir að hlaupið muni ná niður að þjóðvegi um átta tímum eftir að þess verður vart við Sveinstind.
Greint var frá því á miðvikudaginn að hlaup hafi hafist úr vestari Skaftárkatli, en í gær var svo sagt frá því að hlaup væri hafið þeim eystri. Vera kann að loka þurfi þjóðveginum við Eldhraun þegar hlaupvatnið nær þangað.