Menning

Rómeó og Júlía í mótun fram á lokastundu fyrir frumsýningu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Blaðamaður og ljósmyndari litu við á síðustu æfingu á verkinu Rómeó og Júlía fyrir frumsýningu. Enn var verið að fínpússa og ræða ákveðna hluti rétt áður en æfing hófst og verður því áhugavert að sjá sýninguna aftur síðar og sjá hvernig hún hefur mótast í þessu ferli.
Blaðamaður og ljósmyndari litu við á síðustu æfingu á verkinu Rómeó og Júlía fyrir frumsýningu. Enn var verið að fínpússa og ræða ákveðna hluti rétt áður en æfing hófst og verður því áhugavert að sjá sýninguna aftur síðar og sjá hvernig hún hefur mótast í þessu ferli. Vísir/Vilhelm

Um helgina var frumsýnt verkið Rómeó og Júlía í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Um er að ræða einstaka uppsetningu á þessu fræga verki og nær Þorleifur algjörlega að setja sinn svip á sýninguna.

Sturla Atlas að þylja upp Shakespeare af ótrúlegri innlifun og angist í ballettpilsi er eitthvað sem allir ættu að sjá. Ebba Katrín Finnsdóttir er dásamleg í hlutverki hinnar taugatrekktu og ástföngnu Júlíu. 

Sigurbjartur Sturla Atlason, betur þekktur sem Sturla Atlas, er einstakur í hlutverki Rómeó. Atli Rafn Sigurðarson faðir hans leikur Föður Merkútsíó í sýningunni. Það er einstakt að sjá feðgana saman á sviðinu í þessu verki, því líkamstjáningin þeirra er svo lík á margan hátt.Vísir/Vilhelm
Mabba (Bríet) smellir kossi á Júlíu (Ebbu Katrínu) á æfingu. Vísir/Vilhelm

Leikaravalið fyrir þessa sýningu er virkilega vel heppnað og fékk  uppsetningin mjög góð viðbrögð um helgina. Tónlistin er nútímaleg, falleg og líka fyndin og dansarnir upp á tíu. Pelsar, neonmálning, beinagrindur og hárkollur í öllum regnbogans litum er ekki endilega það sem vanalega sést í Rómeó og Júlíu en einhvern veginn virkar þetta samt algjörlega. 

Benvólíó (Hilmar Guðjónsson) og Faðir Merkútsíó (Atli Rafn Sigurðarson) á æfingu. Kristinn Gauti Einarsson og Harpa Rún Kristjánsdóttir þýddu verk Williams Shakespeare. Dramatúrgur sýningarinnar er Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir.Vísir/Vilhelm
Þorleifur Örn Arnarsson á lof skilið fyrir þessa öðruvísi og áhugaverðu uppsetningu á verki Williams Shakespeare. Hann setur svo sannarlega sinn svip á Rómeó og Júlíu. Vísir/Vilhelm

Blaðamaður og ljósmyndari litu við á lokaæfingu Rómeó og Júlíu og hittu hópinn baksviðs. Nokkrar fleiri myndir frá heimsókninni má sjá hér fyrir neðan. 

Mæðgurnar slaka á baksviðs. Ebba Katrín Finnsdóttir leikur taugatrekkta og ástfangna Júlíu og Nína Dögg Filippusdóttir leikur móður hennar í sýningunni. Fóstruna leikur Ólafía Hrönn Jónsdóttir.Vísir/Vilhelm

Allir stórkostlega litríku pelsarnir og flottu búningarnir í sýningunni setja ótrúlega skemmtilegan svip á þetta klassíska verk. Anna Rún Tryggvadóttir og Urður Hákonardóttir sáu um búningana.

Arnar Jónsson fer á kostum sem Kapúlett, faðir Júlíu í sýningunni.  Hér er hann ásamt dansaranum og danshöfundinum Ernesto Camilo Aldazábal Valdés sem er kominn í fullan búning. Vísir/Vilhelm
Bríet sannar það enn og aftur í þessari sýningu að hún er drottning Íslands, okkar eigin Beyoncé. Tónlistarstjóri sýningarinnar er Salka Valsdóttir en yfir lýsingunni er Björn Bergsteinn Guðmundsson. Leikmyndina hannaði Ilmur Stefánsdóttir. Kristinn Gauti Einarsson er yfir hljóðhönnun.Vísir/Vilhelm

Ernesto Camilo Aldazábal Valdés og Rebecca Hidalgo eru danshöfundar sýningarinnar. Þeirra paradansatriði fremst á sviðinu skilur áhorfendur eftir agndofa. 

Hallgrímur Ólafsson er fullkominn í hlutverki Parísar, mannsins sem fólk elskar að hata. Sönghæfileikar hans fá svo sannarlega að skína skært.Vísir/Vilhelm
Nína Dögg Filippusdóttir, Frú Kapúlett, í förðun. Vísir/Vilhelm

Þjóðleikhúsið hélt svokallað Rómeó og Júlíu Festival um helgina og bauð mikið af ungu fólki á fyrstu sýningarnar. 

Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri var auðvitað í salnum á lokaæfingu Rómeó og Júlíu fyrir frumsýningu.Vísir/Vilhelm
Rómeó settur í búninginn fyrir æfingu. Vísir/Vilhelm

Lýsingin er stórkostleg og gjörbreytir sviðinu á milli atriða. Notkun á blacklight ljósum í einu tónlistaratriðanna var í sérstöku uppáhaldi blaðamanns.

Moldin á sviðinu setur virkilega skemmtilegan svip á sýninguna.Vísir/Vilhelm
Örn Árnason og Siggi Sigurjóns eiga einstaklega skemmtilega innkomu í sýninguna. Vísir/Vilhelm

Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri samdi við Þjóðleikhúsið á síðasta ári. Hann hefur gert samkomulag um að setja upp eina sýningu í leikhúsinu á hverju leikári næstu árin. Hann mun jafnframt vinna með Þjóðleikhúsinu að því að efla alþjóðlegt samstarf leikhússins og veita leikhúsinu listræna ráðgjöf á tímabilinu.

Leikstjórinn og aðalleikkonan fara yfir punkta saman. Þorleifur sat úti í sal á lokaæfingunni og skrifaði stanslaust hjá sér athugasemdir alla lokaæfinguna. Upptaka var líka í gangi og ljóst að verið var að móta sýninguna fram á lokamínútu fyrir frumsýningu. Það er líka það sem er svo skemmtilegt við leikhúsið.Vísir/Vilhelm

Lög og texta sýningarinnar eiga Salka Valsdóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Auður og Bríet Ísis Elfar.

Salka Valsdóttir og Bríet Ísis Elfar hita upp raddböndin, áður en þær klára að gera sig til og fara í búninga fyrir síðasta æfingarrennslið. Vísir/Vilhelm
Farið yfir nokkur lokaatriði baksviðs áður en æfingarrennslið hófst. Vísir/Vilhelm

Rauða krossaljósaskiltið og pönkaða andrúmsloftið gefur samt sterka tengingu við Romeo + Juliet kvikmyndina með Leonardo DiCaprio og Claire Danes í aðalhlutverkum.

Búningar, hár og förðun sýningarinnar eru fáránlega töff. Hér má sjá Ernesto Camilo Aldazábal Valdés sem leikur Baltasar og Jónmund Grétarsson sem leikur Tíbalt frænda Júlíu í uppsetningunni.Vísir/Vilhelm
Hilmar Guðjónsson í förðun baksviðs í Þjóðleikhúsinu.Vísir/vilhelm

Myndbönd eru notuð á skemmtilegan hátt í sýningunni og geta leikararnir þar með nýtt allt rýmið betur, kjallarann undir sviðinu, lyftuna og fleira. Myndbandshönnun er í höndum Nönnu MBS og Signý Rósar Ólafsdóttur.

Moldin sem Ebba stendur í, spilar stórt hlutverk í nokkrum atriðum sýningarinnar. Moldin þekur allt sviðið.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Bjóða ungu fólki á Rómeó og Júlíu festival

Þjóðleikhúsið mun standa fyrir einstakri leikhúshátíð fyrir unga fólkið í tengslum við frumsýningu á Rómeó og Júlíu í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar á Stóra sviðinu þann 4. september.

Auður tekur ekki þátt í upp­setningu Rómeó og Júlíu

Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, mun ekki taka þátt í uppsetningu leikverksins Rómeó og Júlíu sem mun verða sýnt í Þjóðleikhúsinu næsta vetur en hann tilkynnti í gær að hann muni draga sig í hlé. Þetta staðfestir Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri, í samtali við fréttastofu.

Júlía er fundin en nú hefst leitin að Rómeó

Þjóðleikhúsið undirbýr nú uppsetningu á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Sýningin verður frumsýnd í byrjun mars 2021.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×