„Þetta er í takti við það sem sérfræðingar gerðu ráð fyrir um framgang. Enn er nokkuð í það að rennslið nái hámarki við Sveinstind,“ segir í tilkynningunni.
„Hlaupvatnið er komið undan jöklinum og búið að ná mælinum okkar þar. Þetta er komið upp fyrir hámarkið úr hlaupinu úr vestari katlinum en það er töluvert eftir,“ segir Hulda Rósa Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Ísland, í samtali við fréttastofu.
Tilkynnt var á sunnudag að hlaup sé hafið úr Eystri-Skaftárkatli, sem eykur vatnsflauminn í Skaftá töluvert en ef hlaupið hefði aðeins verið úr vestari katlinum, sem nú er sagt í rénun.
Þegar síðasta Skaftárhlaup, sem varð árið 2018, náði hámarki var hámarksrennsli flóðsins um 2.000 rúmmetrar á sekúndu. Sú tala gerir ráð fyrir framhjárennsli sem mælirinn við Sveinstind nemur ekki.
Enn sé þó nokkuð í að hlaupvatnið komist niður að þjóðvegi og nái hámarki.
„Við sjáum sennilega hámarkið í Sveinstindi á morgun en hámarkið niðri við þjóðveg verður líklega ekki fyrr en eftir tvo sólarhringa,“ segir Hulda.
Gera megi ráð fyrir að vatnið muni flæða yfir þjóðveginn, en búið sé að koma upp hjáleið um Meðallandið svo hægt verði að komast þarna um.
„Miðað við að það er há vatnsstaða í ánni fyrir þá má alveg gera ráð fyrir því að áin flæði eitthvað aðeins yfir þjóðveginn,“ segir Hulda Rós.
Fréttin var uppfærð klukkan 15:25.