Enski boltinn

Munu þurfa sýna fram á bólu­setningu eða nei­kvætt próf við komuna á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Áhorfendur á Old Trafford þurfa að sýna fram á bólusetningu eða mæta með neikvætt PCR-próf sem er innan við 48 klukkustunda gamalt ætli þau sér að horfa á Cristiano Ronaldo og félaga leika listir sínar.
Áhorfendur á Old Trafford þurfa að sýna fram á bólusetningu eða mæta með neikvætt PCR-próf sem er innan við 48 klukkustunda gamalt ætli þau sér að horfa á Cristiano Ronaldo og félaga leika listir sínar. Catherine Ivill/Getty Images

Frá og með leiknum gegn Newcastle United sem fram fer þann 11. september mun Manchester United krefjast þess að þau sem ætla að sjá leiki liðsins á Old Trafford sýni fram á annað hvort bólusetningu eða 48 klukkustunda gamalt PCR-próf.

Manchester United tekur á móti Newcastle United í leik sem er - eða var allavega - beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem Cristiano Ronaldo gæti snúið aftur á Old Trafford og það í treyju Man United að þessu sinni.

Það er þó fleira sem mun breytast á Old Trafford, heimavelli liðsins, á laugardaginn kemur. Félagið mun nefnilega ætlast til þess að þau sem mæta á völlinn til að styðja við heimamenn – eða gestina – sýni fram á annað hvort bólusetningu eða 48 gamalt PCR-próf.

Sem stendur er það ekki krafa en talið er að enska úrvalsdeildin muni setja þá kröfu þann 1. október fyrir áhorfendur sem eru 18 ára eða eldri.

Í júlí á þessu ári sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að líklega yrði sú krafa gerð á viðburðum þar sem fleiri en 20 þúsund kæmu saman. Old Trafford tekur sem stendur 74,140 manns í sæti og er ljóst að forráðamenn Man Utd stefna á að hafa uppselt á öllum leikjum liðsins út tímabilið.

„Ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að frá og með 1. október 2021 þurfi fólk að sýna fram á bólusetningu eða neikvætt PCR-próf ætli það sér að mæta á stóra viðburði. Til að fylgja viðmiðum ensku úrvalsdeildarinnar þá munu slíkar reglur gilda á Old Trafford,“ segir í yfirlýsingu Man Utd um málið.

Man United er langt því frá eina liðið sem ætlast til þessa af áhorfendum sínum. Brighton & Hove Albion, Chelsea og Tottenham Hotspur hafa nú þegar gert slíkar ráðstafanir og reikna má með því að fleiri lið fylgi í fótspor þeirra frá og með 1. október.

BBC, breska ríkistúvarpið, greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×