Fótbolti

Sér ekki eftir sjálfunni með Memphis þrátt fyrir fimm ára bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Amin Aktaou má ekki mæta á leiki næstu fimm árin en hann á allavega mynd af sér með Memphis Depay.
Amin Aktaou má ekki mæta á leiki næstu fimm árin en hann á allavega mynd af sér með Memphis Depay. getty/Peter Lous

Drengurinn sem hljóp inn á Philips-völlinn í Eindhoven til að fá mynd af sér með Memphis Depay, leikmanni hollenska landsliðsins, sér ekki eftir neinu þrátt fyrir að hafa fengið fimm ára bann fyrir athæfið.

Hinn þrettán ára Amin Aktaou hljóp inn á völlinn í leik Hollands og Svartfjallalands í undankeppni HM 2022 á laugardaginn og fékk mynd af sér með Memphis.

Sjálfan reyndist dýr en Aktaou fékk hundrað evra sekt og má ekki mæta á leiki næstu fimm árin. Það truflar hann þó lítið.

„Þú lifir aðeins einu sinni svo ég gerði þetta bara. Það yrði leiðinlegt að fá bann en ég fékk að minnsta kosti mynd af mér með Memphis,“ sagði Aktaou.

Memphis skoraði tvö mörk í 4-0 sigri á Svartfjallalandi um helgina og fylgdi því eftir með þrennu í 6-1 sigri á Tyrklandi í gærkvöldi. Með sigrinum komust Hollendingar á topp G-riðils undankeppninnar.

Memphis hefur verið í miklu stuði með hollenska landsliðinu á þessu ári og skorað tólf mörk fyrir það. Hann jafnaði þar með met Patricks Kluivert frá 2000. Memphis hefur skorað 33 mörk fyrir Holland, jafn mörg og Johan Cruyff.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×