Enski boltinn

„Bitnar aðallega á leikmönnunum“

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp er með þrjá Brasilíumenn í sínum hópi.
Jürgen Klopp er með þrjá Brasilíumenn í sínum hópi. Getty/Andrew Powell

Jürgen Klopp, Pep Guardiola og Thomas Tuchel eru meðal þeirra sem harma þá stöðu sem upp er komin í enska boltanum varðandi brasilísku leikmennina sem bannað hefur verið að spila um helgina.

Enn standa yfir viðræður til að leysa úr stöðunni. Eins og fram hefur komið fór brasilíska knattspyrnusambandið fram á það við FIFA að leikmennirnir yrðu settir í fimm daga bann vegna þess að félagsliðin þeirra bönnuðu þeim að ferðast frá Englandi til Suður-Ameríku í leiki í undankeppni HM.

Bannið snertir Alisson, Fabinho og Roberto Firmino (Liverpool), Ederson og Gabriel Jesus (Manchester City), Raphinha (Leeds United), Fred (Manchester United) og Thiago Silva (Chelsea).

Félagslið þeirra bönnuðu þeim að fara til Suður-Ameríku vegna þess að við komuna heim til Englands hefðu þeir þurft að fara í tíu daga sóttkví samkvæmt Covid-reglum breskra stjórnvalda, komandi frá löndum á „rauðum lista“.

„Félögin vildu leyfa þeim að fara en það var ekki gerlegt“

Klopp og hans lið verður hvað verst fyrir barðinu á banninu, verði því ekki aflétt, en Liverpool mætir Leeds á útivelli á sunnudaginn.

„Bobby [Firmino] getur ekki spilað vegna meiðsla frá síðasta leik. En þetta er mjög snúin staða fyrir félögin og leikmennina sérstaklega. Við skulum ekki gleyma því að leikmennirnir vildu spila þessa landsleiki. Félögin vildu leyfa þeim að fara en það var bara ekki gerlegt,“ sagði Klopp og vísaði í ákvörðun breskra stjórnvalda.

„Þetta bitnar aðallega á leikmönnunum því þeir fá ekki að spila. Það er það sem þeir elska að gera. Þetta er ekki í lagi,“ sagði Klopp og bætti við:

„Það geysar heimsfaraldur. Stundum finnst manni það ekki vera en svo erum við minnt á það. Knattspyrnumenn hafa fengið undanþágur sem hafa ekki leitt til neinnar smitdreifingar vegna alls þess sem við þurfum að gera í hverri viku. Þetta er ólíkt því sem er annars staðar í samfélaginu. Við förum í smitpróf þrisvar í viku.“

Thomas Tuchel þarf líklega að spjara sín án Thiago Silva.Getty/Harriet Lander

„Skil ekkert í stöðunni né hvað við getum gert“

„Ég skil ekkert í þessu. Þetta er óskiljanlegt, sama hvernig maður lítur á þetta. Meikar þetta sens fyrir Brasilíu? Nei. Meikar þetta sens fyrir okkur? Nei,“ sagði Tuchel, stjóri Chelsea, spurður út í væntanlega fjarveru Thiago Silva í leiknum við Aston Villa á morgun.

„Ef að við hefðum sent hann í landsleikina hefði hann þurft að vera í tíu daga á hótelherbergi án þess að mega æfa. Ég veit ekki hvort nokkur sér eitthvað gott við þetta,“ sagði Tuchel.

Pep Guardiola botnar ekkert í stöðunni.Getty/Matt McNulty

Guardiola, stjóri Manchester City, tók í sama streng en hann gæti þurft að spjara sig án Jesus og Ederson. „Vonandi geta þeir spilað. Við bíðum og sjáum hvort það verða einhverjar fréttir á morgun en það verður að koma í ljós. Ég skil ekkert í stöðunni né hvað við getum gert,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×