Enski boltinn

Segir rangt að reka Struijk út af fyrir tæklinguna á Elliott

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harvey Elliott fær aðhlynningu eftir að hann meiddist illa í leiknum gegn Leeds United í gær.
Harvey Elliott fær aðhlynningu eftir að hann meiddist illa í leiknum gegn Leeds United í gær. getty/Mike Egerton

Gary Neville, sparkspekingur á Sky Sports, segir að Craig Pawson hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann rak Pascal Struijk af velli fyrir tæklingu á Harvey Elliott í leik Leeds United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Á 60. mínútu tæklaði Struijk Elliott með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi fótbrotnaði. Struijk var svo rekinn af velli.

„Strákurinn er það mikilvægasta en ég er ekki viss um að þetta sé rautt spjald,“ sagði Neville á Sky Sports eftir leikinn í gær.

„Rauða spjaldið er vegna afleiðinganna sem tæklingin hafði, ekki vegna hennar sjálfrar. Þetta er ekki gott. Leikmönnunum sem sáu þetta var brugðið og Jürgen Klopp er brjálaður.“

Elliott var í byrjunarliði Liverpool í þriðja leiknum í röð í gær en hann hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína.

Þessi átján ára miðjumaður lék sem lánsmaður með Blackburn Rovers í ensku B-deildinni á síðasta tímabili. Hann lék 41 deildarleik með liðinu og skoraði sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×