Heildarniðurstaðan er sú að fjárhagsstaða fatlaðs fólks er mjög slæm. Tæplega fjórir af hverjum tíu búi við skort á efnislegum gæðum. Þá standa einstæðir fatlaðir foreldrar og einhleypt fatlað fólk höllum fæti fjárhagslega.
Tæplega níu af hverjum tíu einhleypum og einstæðum foreldrum eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. Um helmingur einstæðra fatlaðra foreldra og einhleypra býr við skort á efnislegum gæðum. Ríflega fjórir af hverjum tíu einstæðum foreldrum geta ekki veitt börnunum sínum eins næringarríkan mat og þeir vilja eða greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda.
Þá er andleg og líkamleg heilsa fatlaðs fólks slæm og hafa flestir neitað sér um heilbrigðisþjónustu.
Ríflega átta af hverjum tíu hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu. Sex af hverjum tíu hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu. Þrír af hverjum tíu hafa neitað sér um almenna heilbrigðisþjónustu. Tæplega níu af hverjum tíu segja að kostnaður sé helsta ástæða þess að þeir hafi neitað sér um heilbrigðisþjónustu.
Þá finna margir fyrir félagslegri einangrun og meirihluti finnur fyrir fordómum. Talsverður vilji er meðal fatlaðs fólks til að vera á vinnumarkaði, en heilsa þess er helsta fyrirstaðan. Tæplega sex af hverjum tíu segja mikilvægast að hækka örorkulífeyri og tengdar greiðslur þegar spurt er um breytingar á almannatryggingakerfinu.