Enski boltinn

Neville og Carragher heitt í hamsi: „Eins og að deila við fimm ára barn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru að flestra tveir af bestu fótboltamönnum sögunnar.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru að flestra tveir af bestu fótboltamönnum sögunnar. getty/Nicolò Campo

Gary Neville og Jamie Carragher voru langt frá því að vera sammála þegar þeir ræddu um hvort Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi væri besti fótboltamaður allra tíma í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

Það kom fáum á óvart Neville talaði máli Ronaldos, fyrrverandi samherja síns hjá Manchester United. Ronaldo gekk aftur í raðir United í síðasta mánuði og skoraði tvö mörk í fyrsta leik sínum fyrir félagið í tólf ár á laugardaginn.

„Ég held að þegar við tökum markametið í landsleikjum, Meistaradeildartitlana og hversu fjölbreytt mörk hann skorar að hann sé besti fótboltamaður allra tíma,“ sagði Neville.

Carragher var á öndverðum meiði og sagði að Messi gæti gert hluti sem Ronaldo gæti ekki.

„Það er enginn sem er ekki aðdáandi þeirra beggja. En Ronaldo er ekki besti fótboltamaður allra tíma. Það skiptir ekki máli hvernig boltinn endar í netinu. Messi er með betri markatölfræði en Ronaldo. Hann er líka leikstjórnandi. Messi getur stjórnað leikjum sem Ronaldo getur ekki,“ sagði Carragher.

„Ronaldo gerir hluti sem aðrir leikmenn geta gert en Messi gerir hluti sem við höfum aldrei áður séð.“

Þeim Neville og Carragher var nokkuð heitt í hamsi og Neville sagði að það að reyna að rökræða við Carragher væri eins og að deila við fimm ára gamalt barn.

Ronaldo leikur væntanlega annan leik sinn fyrir United eftir endurkomuna þegar liðið sækir Young Boys frá Sviss heim í Meistaradeild Evrópu í dag. Messi og félagar í Paris Saint-Germain mæta Club Brugge í Belgíu annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×