Handbolti

Upphitun SB: Fjórtán marka maðurinn mætir liðinu sem „á hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði fjórtán mörk í fyrstu umferð.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði fjórtán mörk í fyrstu umferð. Vísir/Hulda Margrét

Nýr liður hér á Vísi er þegar Seinni bylgjan hitar upp fyrir hverja einustu umferð í Olís deild karla í handbolta í allan vetur.

Önnur umferð karlahandboltans fer fram í þessari viku og Seinni bylgjan er tilbúinn í slaginn sem fyrr. Stefán Árni Pálsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson fóru yfir leiki umferðarinnar í nýjum föstum lið inn á Vísi.

Seinni bylgjan mun fara yfir hverja umferð í vetur eins og vanalega eftir lokaleik umferðarinnar en í viðbót er ætlunin að hita upp fyrir næstu umferð hér inn á Vísisnefnum.

Umsjónarmaðurinn Stefán Árni Pálsson fær þá alltaf góðan sérfræðing með sér og í fyrsta þættinum var Ásgeir Örn Hallgrímsson með í för.

Þeir félagar fóru líka sérstaklega yfir leik Hauka og Fram sem fór fram á laugardaginn eða eftir umferðarþátt Seinni bylgjunnar.

Stefán Árni og Ásgeir Örn hituðu síðan upp fyrir þá fimm leiki sem fata fram frá miðvikudegi til föstudags.

Klippa: Upphitun Seinni bylgjunnar fyrir 2. umferð Olís deildar karla í handbolta 2021-22

Stjarnan og ÍBV mætast í Garðabæ á miðvikudaginn og á fimmtudagskvöldið tekur KA á móti Víkingi fyrir norðan, FH fær Gróttu í heimsókn í Kaplakrika og Fram tekur á móti Selfossi í Safamýrinni.

Stórleikur umferðarinnar er á föstudagskvöldið þegar Afturelding tekur á móti Haukum.

Í liði Aftureldingar er einmitt Guðmundur Bragi Ástþórsson sem skoraði fjórtán mörk fyrir liðið í fyrstu umferðinni. Guðmundur Bragi er einmitt „í eigu“ Hauka sem lánuðu hann í Mosfellsbæinn.

Leik Vals og HK var frestað vegna þátttöku Valsmanna í Evrópukeppni í þessari viku.

Hér fyrir ofan má sjá upphitun Seinni bylgjunnar fyrir aðra umferð Olís deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×