Enski boltinn

Þrír leikmenn Liverpool hafa fengið stöðuhækkun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Robertson og Trent Alexander-Arnold fengu báðir stöðuhækkun hjá Liverpool á dögunum.
Andy Robertson og Trent Alexander-Arnold fengu báðir stöðuhækkun hjá Liverpool á dögunum. EPA-EFE/Phil Noble

Fyrirliðahópurinn hjá Liverpool tvöfaldaðist á dögunum og telur nú sex leikmenn.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði frá því að blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleik Liverpool á móti Porto, að hann hafi gert breytingar á fyrirliðahóp liðsins.

Það voru þrír leikmenn eftir í fyrirliðahóp liðsins eftir að Gini Wijnaldum fór til Paris Saint Germain. Aðalfyrirliðinn Jordan Henderson og varafyrirliðarnir James Milner og Virgil van Dijk.

Nú hefur Klopp tvöfaldað þennan fyrirliðahóp og það kom til eftir kosningu innan liðsins.

Trent Alexander-Arnold, Andy Robertson og Alisson Becker unnu þessa kosningu og bætast því í hóp fyrirliða liðsins.

„Við vorum með þrjá fyrirliða í þeim Hendo, Milly og Virg en leikmennirnir kusu um það að fjölga í hópnum. Trent, Robbo og Alisson Becker unnu hana,“ sagði Jürgen Klopp.

„Ástæðuna fyrir þessari breytingu má rekja til síðasta árs þegar við vorum með svona mikil meiðsli í liðinu og um tíma vantaði alla úr fyrirliðaráðinu. Ég ákvað því að fjölga upp í sex í hópnum,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir Porto á útivelli í Meistaradeildinni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×