Enski boltinn

Sir Alex hélt að hann væri búinn að kaupa Gazza til Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Gascoigne á svipuðum tíma og Manchester United var að reyna að kaupa hann.
Paul Gascoigne á svipuðum tíma og Manchester United var að reyna að kaupa hann. Getty/Danny Brannigan

Sir Alex Ferguson vildi fá Paul Gascoigne til Manchester United á sínum tíma en Gazza endaði þá sem leikmaður Tottenham. Sir Alex trúir því að Gascoigne hefði verið farsælli á Old Trafford.

Ferguson var knattspyrnustjóri Manchester United frá 1986 til 2013 og það voru margir öflugir leikmenn sem voru orðaðir við félagið á þessum tíma.

Áður en sigurgangan hófst eftir 1990 þá var United á eftir einum efnilegasta knattspyrnumanni Englendinga. Sá hinn sami valdi frekar að fara til Lundúna en til United.

Árið var 1988 og Paul Gascoigne var 21 árs gamall og búinn að spila þrjú heil tímabil með Newcastle United. Sir Alex sér enn eftir því að hafa ekki tekist að sannfæra Gascoigne um að koma til Manchester United.

„Ef ég segi alveg eins og er þá bara einn leikmaður sem ég sá mikið eftir og það er Gascoigne. Hann var algjörlega frábær. Ég er viss um að ef við hefðum náð honum þá hefði hann átt frábæran feril hér. Ég trúi því virkilega,“ sagði Sir Alex Ferguson í viðtali sem Daily Mail hefur eftir honum.

„Ég er ekki að setgja að hann hafi ekki átt góðan feril en hann hefði átt betri feril með okkur,“ sagði Sir Alex.

„Við vorum með Geordies í okkar liði eins (Bryan) Robson, (Steve) Bruce og svo auðvitað Bobby Charlton. Þeir hefðu hjálpað honum mikið. Hann lofaði að koma til okkar en fór síðan í frí,“ sagði Ferguson.

„Ég fékk síðan símtal frá Martin Edwards sem sagði að hann hefði samið við Tottenham. Hann samdi við Tottenham af því að þeir keyptu hús fyrir móður hans sem kostaði 80 þúsund pund. Ég trúði þessu ekki því hann var stórkostlegur leikmaður,“ sagði Ferguson.

Gascoigne spilaði með Tottenham frá 1988 til 1992 og var leikmaður liðsins þegar hann sló í gegn með enska landsliðinu á heimsmeistaramótinu á Ítalíu 1990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×