Þegar meintar lokatölur alþingiskosninganna lágu fyrir á sunnudagsmorgun fögnuðu því margir að 33 konur yrðu á nýju þingi á móti þrjátíu körlum. Hefði þetta verið í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem konur yrðu í meirihluta og er sú staða sömuleiðis sjaldséð á heimssviðinu. Hefði það þannig verið í fyrsta sinn í sögu Evrópu.
Erlendir miðlar á borði við BBC, Guardian og Reuters, hafa birt leiðréttingarfréttir í kjölfarið.
Katrín segist hafa farið í eitt viðtal við erlendan fjölmiðil vegna málsins. „Ég held ég hafi bara lent í einu viðtali vegna þessa, kannski sem betur fer ekki fleirum því þetta er auðvitað alls ekki gott. Það er auðvitað ekki gott fyrir Ísland að það komi svona fréttir komi af okkur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir að loknum fundi hennar og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Stjórnarráðshússins í gær.
„Það sem máli skiptir er ekki endilega fréttaflutningurinn heldur að málið verði upplýst og komist til botns í því sem fyrst og það eru allir að vinna að því,“ sagði Katrín í samtali við fréttastofu.
Hún segir að engu að síður sé hlutur kvenna á nýju Alþingi mjög stór. „Já, hann er mjög góður, þannig að við getum alveg fagnað því þó þær hafi ekki endað í meirihluta, eins og staðan er núna, maður þorir ekki að segja annað,“ segir Katrín.