Fyrr í vikunni var breski herinn settur í viðbragðsstöðu ef til þess kæmi að herinn þyrfti að aðstoða við að fylla á bensíndælur í landinu. Bensín var víða uppurið á bensínstöðvum í landinu eftir að margir höfðu hamstrað eldsneyti.
Á meðan nægt eldsneyti er til á þar til gerðum birgðastöðvum leiðir skortur á bílstjórum vöru- og olíuflutningabíla, ásamt skyndilegu hamstri íbúa á eldsneyti, til ástandsins. Talið er að allt að hundrað þúsund vörubílstjóra vanti í Bretlandi.
Bretar virðast verulega pirraðir á stöðunni ef marka má orð ökumanna sem AP fréttastofan ræddi við í gær.
Bretum virðist þó hafa tekist að ná stjórn á vandamálinu. Ráðherrann Simon Clarke segir að nóg sé til af eldsneyti á bensínstöðvum landsins um þessar mundir. Meira bensín er flutt á stöðvarnar en selt er, og segir Clarke stöðuna líklega fara batnandi. Þetta kemur fram hjá Sky News.
Eitthvað virðast ökumenn þó ósammála orðum Clarkes. Samkvæmt nýlegri nýlegri könnun Félags bensínsala í Bretlandi segja ökumenn enn skort á eldsneyti. Framkvæmdastjóri félagsins segir enn fremur að starfsfólk bensínstöðva hafi orðið fyrir miklu áreiti frá ósáttum ökumönnum vegna stöðunnar.
Herinn er enn í viðbragðsstöðu en 150 hermenn eru til taks ef grípa þarf til aðstoðar við að koma bensíni á bensínstöðvar.