Enski boltinn

Segir að Mo Salah sé betri en Cristiano Ronaldo og Lionel Messi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar öðru marka sinna á móti Porto ásamt Sadio Mane.
Mohamed Salah fagnar öðru marka sinna á móti Porto ásamt Sadio Mane. AP/Luis Vieira

Fyrrum leikmaður Liverpool hrósar Mohamed Salah mikið og segir að hann sé kominn fram úr þeim Cristiano Ronaldo og Lionel Messi sem besti fótboltaleikmaður heims í dag.

Þetta var Meistaradeildarvika í evrópska fótboltanum og það kom því fáum á óvart að þeir Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafi eignað sér fyrirsagnirnar einu sinni sem oftar.

Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir Paris Saint Germain í sigri á Manchester City á þriðjudagskvöldið og sólarhring síðar skoraði Ronaldo dramatísk sigurmark Manchester United í uppbótatíma.

Það var því minni athygli á afrekum Liverpool mannsins Mohamed Salah sem skoraði tvö mörk í 5-1 útisigri liðsins á Porto.

Dean Saunders, fyrrum framherji Liverpool, vildi vekja athygli á gæðum Mo Salah og hversu vel hann hefur byrjað þetta tímabil.

„Akkúrat núna, hver er betri en hann í heiminum,“ spurði Dean Saunders í þætti í talkSPORT útvarpinu en svaraði svo sjálfur.

„Átta mörk í átta leikjum frá hægri vængnum. Hann er ekki að spila fyrir framan markið. Hann lítur út fyrir að vera óstöðvandi,“ sagði Saunders.

„Það eru vissulega Messi og Ronaldo, sem eru sér á báti, en einmitt núna þá eru þeir ekki eins góðir og Salah,“ sagði Saunders.

Saunders var spurður hvort hann vildi hafa Salah eða Ronaldo í sínu liði.

„Akkúrat núna, Salah. Það er auðvelt að svara Ronaldo en eins og staðan er núna þá myndi ég velja Salah því hann lítur út eins og hann ætli að skora í hverri viku,“ sagði Saunders.

Mohamed Salah er með 5 mörk og 2 stoðsendingar í 6 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og þrjú mörk í tveimur leikjum í Meistaradeildinni. Alls hefur hann skorað 128 mörk í 196 leikjum í þessum tveimur keppnum síðan að hann kom til Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×