„Það er alltaf jafn gaman að vinna titil og þessi var geggjað sætur. Við vorum svo tilbúnar í þetta og ég er ógeðslega stolt af liðinu,“ sagði Ásta.
Hún var sátt með frammistöðu Blika í leiknum í kvöld. „Það var ekkert rosalega stíf leikáætlun en við ætluðum bara að mæta af krafti og keyra yfir þær. Mér fannst það ganga mjög vel og við áttum þetta virkilega skilið.“
Breiðablik var 2-0 yfir í hálfleik og eftir rúman klukkutíma skoraði Hildur Antonsdóttir þriðja mark liðsins og fór langt með að klára leikinn.
„Þriðja markið var einstaklega mikilvægt og eftir það sigldum við þessu heim,“ sagði Ásta.
Blikar enduðu í 2. sæti Pepsi Max-deildarinnar en gengu samt ekki titlalausar frá borði.
„Það er ekkert hægt að vera ósáttur eftir íslenska tímabilið. Við hefðum getað gert betur á köflum í deildinni en að enda þetta svona, með bikarmeistaratitli er frábært,“ sagði Ásta.
Tímabilinu er hvergi nærri lokið hjá Breiðabliki en liðið er á leið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Fyrsti leikurinn þar er gegn Paris Saint-Germain á miðvikudaginn.
„Við fögnum þessu í kvöld og svo taka spennandi vikur við og við erum klárar í þær,“ sagði Ásta að endingu.
Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.