Enski boltinn

Sjáðu Dag­nýju skora á móti Man. City: Var búin að bíða lengi eftir fyrsta markinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markaskorarar West Ham, Yui Hasegawa og Dagný Brynjarsdóttir, fagna hér marki á móti Manchester City ásamt liðsfélögum sínum.
Markaskorarar West Ham, Yui Hasegawa og Dagný Brynjarsdóttir, fagna hér marki á móti Manchester City ásamt liðsfélögum sínum. Getty/Charlotte Tattersall

Dagný Brynjarsdóttir og félagar hennar í West Ham unnu frábæran útisigur á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

West Ham liðið hefur þar með unnið tvo leiki í röð í fyrsta sinn á leiktíðinni og er komið upp í fimmta sætið.

Dagný kom sínu liði á bragðið með því að skora fyrsta mark leiksins en það var líka hennar fyrsta mark fyrir West Ham. Yui Hasegawa innsiglaði síðan sigurinn.

„Það er frábær tilfinning að ná að vinna hérna. Við höfum trú á okkur sjálfum og komum ekki hingað til að vera með. Við vissum að við gætum gert þetta að erfiðum degi fyrir þær af því við höfum gert það áður,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir í viðtali við heimasíðu West Ham.

„Vikan fyrir leikinn var erfið, bæði með að koma okkur í betra form og líka að skoða mikið af taktík. Það hefur kannski ekki verið það skemmtilegasta en þetta gerir það allt þess virði. Við fengum ekki mikið af færum en nýttum þau vel og vörðumst sem eitt lið,“ sagði Dagný.

Það má sjá svipmyndir frá leiknum hér fyrir neðan og þar á meðal markið hjá íslensku landsliðskonunni.

„Þetta eru frábær úrslit fyrir okkur og vonandi getum við byggt ofan á þetta,“ sagði Dagný Hún var búin að bíða svolítið eftir fyrsta markinu fyrir félagið sem hún hefur haldið með frá unga aldri.

„Ég hef beðið lengi eftir að skora mitt fyrsta mark í vínrauða og bláa búningnum. Ég fékk eitt tækifæri í dag og til allrar hamingju þá fór boltinn í netið,“ sagði Dagný.

„Úrslitin voru þó það mikilvægasta en ég er ánægð með markið og ná að skora fyrir klúbbinn sem ég hef stutt svo lengi,“ sagði Dagný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×