Innlent

Full­trúar frá lands­kjör­stjórn koma fyrir undir­búnings­nefnd í dag vegna Norð­vestur­kjör­­dæmis

Þorgils Jónsson skrifar
Birgir Ármannsson var kjörinn formaður kjörbréfanefndar á fyrsta fundi undirbúningsnefndarinnar á mánudag.
Birgir Ármannsson var kjörinn formaður kjörbréfanefndar á fyrsta fundi undirbúningsnefndarinnar á mánudag. vísir/vilhelm

Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa mun funda í dag kl. 13. Þetta er annar fundur nefndarinnar, sem kom fyrst saman á mánudag, en fyrir henni, og í framhaldinu, kjörbréfanefnd, liggur að finna lausn á hinum ýmsu álitamálum sem komin er upp vegna talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi. 

Þrjár kærur eru komnar fyrir kjörbréfanefndina frá frambjóðendum Pírata, Samfylkingar, og Viðreisnar, auk þess sem Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins staðfestir í samtali við Vísi að hann hyggist leggja fram kæru á næstu dögum.

Samkvæmt vef Alþingis eru þrjú atriði á dagskrá fundarins, minnisblað frá Alþingi um hlutverk og heimildir undirbúningsnefndar og kjörbréfanefndar, fundargerðir landskjörstjórnar og störf nefndarinnar.

Gestir fundarins í dag eru lögfræðingar af skrifstofu þingsins og fulltrúar landskjörstjórnar sem munu fara yfir greinargerð sína frá fundi síðasta föstudag.

Nefndin er skipuð eftir þingstyrk flokka og því fá hvorki Viðreisn né Miðflokkur sæti í nefndinni heldur aðeins áheyrnarfulltrúa.

Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá nefndarmenn, Birgi Ármannsson, Vilhjálm Árnason og Diljá Mist Einarsdóttur.

Framsókn er með tvo nefndarmenn, þau Líneik Önnu Sævarsdóttur og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Inga Sæland situr í nefndinni fyrir Flokk fólksins, Svandís Svavarsdóttir fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata og Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×