Viðskipti innlent

Sér­fræðingar frá TikTok, Spoti­fy og Nike væntan­legir til landsins

Eiður Þór Árnason skrifar
Davíð Lúther, framkvæmdastjóri Sahara.
Davíð Lúther, framkvæmdastjóri Sahara. Aðsend

Fulltrúar frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum á borð við TikTok, Spotify, Nike, Smirnoff og Hubspot koma fram á ráðstefnu sem auglýsingastofan Sahara stendur fyrir í Gamla bíói þann 5. nóvember.

Á ráðstefnunni, sem er haldin undir yfirskriftinni einföldum stafræna markaðssetningu, mun markaðsfólk útskýra allt sem viðkemur faginu.

Fram kemur í tilkynningu frá Sahara að markmiðið með ráðstefnunni sé að að fá nýjustu strauma og stefnur í samfélagsmiðlum og stafrænni markaðssetningu „beint í æð frá þeim sem eru fremstir í faginu á heimsvísu.“

Davíð Lúther, framkvæmdastjóri Sahara, segir það hafa lengi verið draum stofunnar að standa fyrir ráðstefnu af þessu tagi.

„Þó að þetta sé okkar sérþekking lítum við alls ekki svo á að þetta séu einhverjar upplýsingar sem við þurfum að passa upp á. Þvert á móti viljum við uppfræða og eiga í samtali við alla sem starfa við eða hafa áhuga á markaðsmálum,“ segir hann í tilkynningu.

Ráðstefnan sé bæði fyrir byrjendur í faginu og sjóaða sérfræðinga. Davíð bætir við að miðasalan fari vel af stað og augljóst að markaðsfólk sé spennt fyrir því að koma saman eftir marga mánuði af inniveru og heimavinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×