Innlent

Búið að upp­færa þing­manna­listann á al­þingi.is til sam­ræmis við úr­slitin eftir endur­talningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þingmannalistinn hefur verið uppfærður, þrátt fyrir að ekki sé búið að útkljá álitamál tengd kosningunum.
Þingmannalistinn hefur verið uppfærður, þrátt fyrir að ekki sé búið að útkljá álitamál tengd kosningunum.

Búið er að uppfæra þingmannalistann á Alþingisvefnum til samræmis við úrslit kosninganna. Athygli vekur að það hefur verið gert í samræmi við niðurstöður seinni talningarinnar í Norðvesturkjördæmi, þrátt fyrir að hún hafi verið kærð.

Á listanum eru því Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Orri Páll Jóhannsson, þingmaður Vinstri grænna, Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar og Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.

Þar er ekki að finna þá sem duttu út þegar atkvæðin í Norðvesturkjördæmi voru endurtalinn, þau Guðmund Gunnarsson, þingmann Viðreisnar, Lenyu Rún Taha Karim, þingmann Pírata, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, Hólmfríði Árnadóttur, þingmann Vinstri grænna né Karl Gauta Hjaltason, þingmann Miðflokksins.

Engir fyrirvarar eru settir við birtingu þingmannalistans á vefnum.

Karl Gauti hefur kært framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi til lögreglunnar á Vesturlandi og þá hafa Magnús Davíð , Guðmundur, Lenya Rún og Rósa Björk kært endurtalninguna í kjördæminu til kjörbréfanefndar þingsins.

Vísir greindi frá því á miðvikudag að formaður undirbúningskjörbréfanefndar, Birgir Ármannsson, teldi nefndina þurfa nokkrar vikur til að ljúka vinnu sinni vegna kæranna. 


Tengdar fréttir

Bætist í hóp kærenda Alþingiskosninganna

Lenya Rún Taha Karim, frambjóðandi Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður, kærði í dag  endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. Hún hefði náð sæti sem jöfnunarþingmaður hefði niðurstaða upphaflegrar talningar staðið.

Fundir kjörbréfanefndar verða ekki allir opnir

Fyrsti fundur undirbúningskjörbréfanefndar sem fór fram í dag gekk vel að sögn formanns hennar. Nefndarmenn eru almennt á því að fundir eigi að vera opnir þegar hægt er og vonast til að geta myndað breiða sátt um lausn á ágreiningi um kosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×