Undirbúningskjörbréfanefnd hefur borist átta kærur vegna meðferðar kjörgagna og framkvæmdar talningar í Norðvesturkjördæmi.
Frambjóðendur sem töldu sig vera með öruggt jöfnunarsæti eftir fyrri talninguna þar hafa kært framkvæmdina. Þá hefur einn frambjóðandi í Norvesturkjördæmi kært hana og tveir almennir borgarar að sögn Birgis Ármannssonar formanns nefndarinnar.

Engin af þeim sem fékk jöfnunarsæti eftir síðari talninguna í Norðvesturkjördæmi hefur hins vegar ennþá kært kosningarnar en frestur til þess er fjórar vikur frá afhendingu kjörbréfa.
Birgir segir að á fundinum í dag hafi nefndarmenn samþykkt starfsreglur.
„Í starfsreglum gerum við ráð fyrir því að fundir nefndarinnar verði opnir nema ef við erum að fara með trúnaðarupplýsingar eða eitthvað sem er bundið þagnarskyldu. Þá er gert ráð fyrir að streymt verði frá fundunum. Við gerum líka ráð fyrir opinni málsmeðferð og opnum gögnum, “ segir Birgir.
Fram hefur komið í fréttum að formenn stjórnarflokkanna telja æskilegt að undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis verði búin að leysa úr kærumálum áður en þing kemur saman. Birgir telur þetta aðskilin mál.
„Annars vegar þarf að taka aðstöðu til kærumála sem fram eru komin og svo hins vegar stjórnarmyndunarviðræður sem eru í gangi í dag. Þær viðræður byggja á mjög skýrum niðurstöðum kosninga og mjög skýrum meirihluta í þinginu og það er mjög eðlilegt að þær hafi sinn gang alveg óháð því hvað vereður um þetta tiltekna mál,“ segir Birgir.