Innlent

Ekki nýtt að ólíkir persónuleikar séu í þingliði Sjálfstæðisflokksins

Kjartan Kjartansson og Snorri Másson skrifa
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Myndin er úr safni.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist sannfærður um að Birgir Þórarinsson geti lagt þingflokki hans lið þrátt fyrir ýmsar umdeildar skoðanir. Birgir hljóti að telja sig geta rúmast innan Sjálfstæðisflokksins í ljósi þess að hann skipti yfir í flokkinn.

Birgir olli töluverðu fjaðrafoki um helgina þegar hann tilkynnti að hann hefði sagt skilið við Miðflokkinn og væri genginn í Sjálfstæðisflokkinn aðeins tveimur vikum eftir kosningar. Vísaði hann til samstarfsörðugleika innan Miðflokksins sem ættu rætur sínar að rekja til gagnrýni hans á framferði samflokksmanna í Klaustursmálinu svonefnda.

Áður en Bjarni Benediktsson hélt inn á fund með formönnum hinna stjórnarflokkanna fyrir hádegið sagði hann fréttamönnum að vistaskipti Birgis hafi komið á óvart, sérstaklega svo skömmu eftir kosningar. Það væri í sjálfu sér jákvætt að þingmenn vildu ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins.

Á þingi hefur Birgir meðal annars talað gegn rétti kvenna til þungunarrofs og fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Þegar Bjarni var spurður að því hvort að skoðanir Birgis samrýmdust stefnu Sjálfstæðisflokksins sagði hann það liggja í hlutarins eðli að Birgir teldi sig geta rúmast innan flokksins fyrst hann sæktist eftir að ganga til liðs við þingflokkinn.

Benti Bjarni á að Sjálfstæðisflokkurinn væri breiðfylking með atkvæði um fjórðungs landsmanna á bak við sig.

„Það er ekkert nýtt að það séu ólíkir karakterar í okkar þingliði eða í framboði. Ég er sannfærður um að kraftmikill þingmaður eins og Birgir getur lagt okkur lið,“ sagði Bjarni.

Ekkert heyrt frá Ernu

Í yfirlýsingu um helgina sagðist Birgir hafa rætt við Ernu Bjarnadóttur, varaþingmann sinn úr Miðflokknum, og að hún yrði varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur þó ekki staðfest það sjálf en ekkert hefur frá henni heyrst opinberlega eftir tíðindin.

Bjarni sagðist ekkert hafa heyrt frá Ernu. Það þurfi að koma í ljós hvort að hún verði varaþingmaður flokksins skapist þær aðstæður að kalla þurfi inn varamann fyrir Birgi.

Aukinn þingstyrkur Sjálfstæðisflokksins eftir vistaskipti Birgis hefur ekki áhrif á stjórnarmyndunarviðræðurnar, að sögn Bjarna.

Varðandi réttmæti þess að Birgir segði skilið við flokkinn sem hann var kjörinn á þing fyrir svo skömmu eftir kosningar sagði Bjarni það óvanalegt. Stóra spurning væri hvort að þingmenn ættu að halda þingsætinu segðu þeir skilið við flokkinn sem kom þeim á þing.

Ótal dæmi séu um að þingmenn skipti um flokk á Íslandi en það leiði af þeirri reglu að þeir séu aðeins bundnir af sannfæringu sinni og verði ekki settir undir flokksaga eftir að þeir ná kjöri.

„Þess vegna er þetta svona. Hér á Íslandi hafa menn getað gert þetta.“

Ásakanir Sigmundar „út í hött“

Bjarni gaf lítið fyrir ásakanir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í viðtali við Stöð 2 í gær. Þar gerði Sigmundur að því skóna að skyndilegt brotthvarf Birgis væri runnið undan rifjum sjálfstæðismanna sem hefðu með reynt að koma í veg fyrir að eftirstandandi þingmenn Miðflokksins gætu stofnað þingflokk. Aðeins tveir þingmenn eru nú eftir í Miðflokknum.

Þessa kenningu sagði Bjarni út í hött. Hún væri mögulega tilraun Sigmundar til þess að dreifa athyglinni frá vandræðum á milli manna í hans eigin flokki.

„Þetta mál var að frumkvæði Birgis,“ fullyrti Bjarni.

Þá vildi Bjarni ekki velta vöngum yfir því hvort að fleiri liðsmenn Miðflokksins gætu skipt yfir í Sjálfstæðisflokkinn á næstunni og hvort að hann tæki við þeim.

Væri sérstakt að skipta út forsætisráðherra í samstarfi sömu flokka

Bjarni vildi sem fæst segja um stjórnarmyndunarviðræðurnar. Þær gengju ágætlega. Flokkarnir hafi hugmyndir fyrir næstu ár sem verðskuldi að þeir taki sér nokkra daga í að kortleggja helstu áherslur sínar.

Ráðherraskipan hafi verið ræddd lauslega en hvorki sé tímabært að ræða hana né mögulega fjölgun embætta. Sagðist Bjarni telja nær öruggt að allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins frá síðasta kjörtímabili hefðu hug á að gegna áfram ráðherraembætti.

Viðræðurnar miðast við að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði áfram forsætisráðherra.

„Það hefði nú verið dálítið sérstakt ef sömu flokkar eru áfram að starfa að skipta um forsætisráðherra í sama flokkasamstarfi þó að það hafi ekki verið útilokað. En það er ekki ennþá endanlega útkljáð frekar en annað,“ sagði formaður Sjálfstæðisflokksins.



Spyr hvort Birgir eða Rósa Björk sé yfirvegaðri

Undirbúningskjörbréfanefnd Alþingis hefur enn til skoðunar kosningarnar í Norðvesturkjördæmi en fjöldi kæra vegna talningar atkvæða þar hefur borist. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, einn þeirra þingmanna sem datt út af þingi eftir umdeilda endurtalningu atkvæða í kjördæminu, sagði í gær óheppilegt að Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður kjörbréfanefndar hafi tjáð sig um æskilega niðurstöður áður en nefndin tók kærurnar fyrir.

Spurður út í gagnrýni Rósu Bjarkar sagði Bjarni aðeins: „Hvor ætli sé líklegur til þess að geta fjallað um þetta mál af einhverri yfirvegun: Birgir Ármannsson eða Rósa? Ég spyr bara“.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Vistaskipti Birgis óvenjuleg en trufla Katrínu ekki

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir óvenjulegt að þingmaður yfirgefi flokk sinn jafn skömmu eftir kosningar og raun ber vitni hjá Birgi Þórarinssyni, fyrrverandi Miðflokksmanni og nú þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Formennirnir leita fyrirmynda á Norðurlöndunum varðandi röðun málaflokka í sín ráðuneyti.

Áskoranir í viðræðum sem taki tíma

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir áskoranir í stjórnarmyndunarviðræðum hans, Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna og Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Viðræðurnar muni taka minnst einhverja daga til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×