Enski boltinn

Sadio Mané mjög ósáttur með að markvörður Chelsea sé ekki tilnefndur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edouard Mendy er hér á undan Sadio Mane í boltann í leik Chelsea og Liverpool.
Edouard Mendy er hér á undan Sadio Mane í boltann í leik Chelsea og Liverpool. Getty/Simon Stacpoole

Framherji Liverpool var mjög reiður fyrir hönd landa síns Édouard Mendy eftir að kom í ljós að markvörður Evrópumeistara Chelsea er ekki tilnefndur til Gullknattar Evrópu.

Mané og Mendy voru saman í landsliðsverkefni með Senegal en liðið vann 4-1 sigur á Namibíu í undankeppni HM. Landsliðsmenn Senegal fengu margir spurninguna um þá staðreynd að Mendy sé ekki í hópi þeirra þrjátíu sem er tilnefndar til Gullknattar Evrópu í ár.

Einn af þeim var Sadio Mané og það stóð ekki á svari hjá Liverpool manninum þótt að Mendy sé leikmaður keppinautanna í Chelsea.

„Þetta er ótækt. Ég skil þetta ekki. Þarna voru menn að gera mistök,“ sagði Sadio Mané en franska blaðið Onze Mondial hefur það eftir honum.

Édouard Mendy átti mikinn þátt í sigri Chelsea liðsins í Meistaradeildinni en hann hélt meðal annars hreinu í níu af tólf leikjum og einu liðin sem skoruðu mark hjá honum voru Stade Rennais, FC Porto og Real Madrid.

Mendy var sjálfur ekki eins gagnrýninn á valið. „Eins og ég hef sagt áður þá er ég stoltur af því vera fulltrúi þjóðar minnar sem einn af tíu bestu markvörðum heims. Það er þegar mjög gott fyrir mig. Ég er ekki að elta einhverjar viðurkenningar en ég hef fullt af markmiðum og þetta er skref í rétta átt,“ sagði Édouard Mendy.

„Það verða alltaf til mismunandi skoðanir, hvort sem að ég eigi að vera þarna eða einhver annar. Það er frjálst val fjölmiðlamannanna að kjósa og maður verður bara að virða það,“ sagði Mendy.

Mendy hefur spilað samtals 53 leiki í öllum keppnum fyrir Chelsea síðan að hann kom frá Stade Rennais sumarið 2020. Í þeim hefur hann haldið 29 sinnum hreinu og aðeins fengið á sig 34 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×