Enski boltinn

Amnesty samtökin vilja fund með ensku úrvalsdeildinni og það strax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Newcastle United fagna yfirtökunni fyrir framan St. James leikvanginn á táknrænan hátt.
Stuðningsmenn Newcastle United fagna yfirtökunni fyrir framan St. James leikvanginn á táknrænan hátt. AP/Scott Heppell

Það eru margir ósáttir með Sádi Arabar hafi getað keypt enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle United og framkvæmdastjóri Amnesty samtakanna í Bretlandi segir að kaupin veki upp margar óþægilegar spurningar.

Sádar hafa verið sakaðir um alls kyns mannréttindabrot en staða mannréttinda í Sádi-Ar­abíu þykir vera skelfileg, þar sem gagnrýnendur yfirvalda, kvenréttindabaráttufólk, sjía-aðgerðasinnar og verndarar mannréttinda eru enn ofsóttir og fangelsaðir.

Sacha Deshmukh, framkvæmdastjóri Amnesty samtakanna í Bretlandi, hefur sent ensku úrvalsdeildinni formlegt bréf þar sem hann óskar eftir fundi sem fyrst til að ræða breytingar um kaup á enskum fótboltafélögum.

Enska úrvalsdeildin metur sem svo að það séu nægjanleg skil á milli nýja eignarfélagsins og sádi-arabíska ríkisins.

Það stoppaði kaupin til að fara í gegn fyrir átján mánuðum en nú tókst Sádunum að fara í kringum það þrátt fyrir að áttatíu prósent kaupverðsins hafi komið úr fjárfestingarsjóði sádi-arabíska ríkisins.

Yfirmaður sjóðsins er síðan auðvitað krónprinsinn Mohammed bin Salman.

Enska úrvalsdeildin telur sig hafa fengið óyggjandi sannanir frá nýju eigendunum fyrir því að sádi-arabíska ríkið muni ekki stýra Newcastle United og að þeim verði refsað verði það raunin.

„Hvernig enska úrvalsdeildin leyfði þessum samningi að fljúga í gegn veikur upp uggandi spurningar um peningaþvætti, um mannréttindi og íþróttir, og um heilindi í enskum fótbolta,“ sagði Sacha Deshmukh í viðtali við breska ríkisútvarpið.

„Hvernig getur það verið rétt að í nýja eiganda og yfirmannaprófinu sé ekkert spurt út í mannréttindi,“ spurði Deshmukh.

Íþróttamálaráðherrann Nigel Huddleston sagði nýverið að þetta sé mál fyrir fótboltann sjálfan að ráða og útkljá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×