Bíó og sjónvarp

Squid Game: Barnaleikir eru dauðans alvara

Samúel Karl Ólason skrifar
Netflix tilkynnti á mánudaginn að Squid Game væri vinsælasta þáttaröð streymisveitunnar. Það hefur að hluta til verið rakið til aukinnar umræðu um ójöfnuð í heiminum.
Netflix tilkynnti á mánudaginn að Squid Game væri vinsælasta þáttaröð streymisveitunnar. Það hefur að hluta til verið rakið til aukinnar umræðu um ójöfnuð í heiminum. AP/Youngkyu Park

Þættirnir Squid Game frá Suður-Kóreu eru orðnir vinsælustu þættir Netflix í sögu streymisveitunnar. Þættirnir þykja varpa ljósi á samfélagsleg vandamál í Suður-Kóreu og víðar.

Þau vandamál eru sérstaklega ójöfnuður, aukin skuldsetning og gífurlegur framfærslukostnaður. 

Í Squid Game eru 456 skuldsettar og örvæntingarfullar manneskjur fengnar til að taka þátt í leik þar sem þær geta unnið gífurlegt magn peninga. Fólkið er látið spila þekkta barnaleiki í Suður-Kóreu þar sem tap þýðir grimmilegur dauði.

Þetta er fólkið látið gera til að skemmta gömlum ríkum og hræðilega illa leiknum körlum.

Hrunið og Trump leiddu til Squid Game

Hwang Dong-hyuk, leikstjóri þáttanna, segist hafa fengið hugmyndina að þáttunum í hruninu árið 2008 og þeim efnahagsvandræðum sem skullu á Suður-Kóreu í kjölfarið. Árið 2016 hafi Donald Trump svo orðið forseti Bandaríkjanna.

Í viðtali við IndieWire segir Hwang að Trump hafi verið táknmynd ríku illa leiknu mannanna á bakvið grímurnar í Squid Game.

„Það var eins og hann væri að stýra skemmtiþætti, ekki ríki,“ sagði Hwang. Þá hafi hann hugsað að tími væri kominn til að gera Squid Game

111 milljónir á sautján dögum

Netflix tilkynnti á mánudaginn að Squid Game væri vinsælasta þáttaröð streymisveitunnar. Það hefði tekið Hwang Dong-hyuk tíu ár að gera þættina og á sautján dögum hefðu 111 milljónir manna horft á þá.

Þetta væri í fyrsta sinn sem þáttaröð fyrir yfir hundrað milljónir við frumsýningu. Hjá Netflix er frumsýningartímabilið 28 dagar. The Verge segir að eftir að Squid Game kom út þann 17. september enduðu þættirnir í efsta sæti hjá Netflix í 94 ríkjum.

Börn á Íslandi sjúk í Squid Game

Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að þættirnir séu ekki aðeins á vörum fullorðinna heldur einnig barna og unglinga hér á landi.

Forstöðumaður í félagsmiðstöð segir að á hverjum einasta degi biðji krakkar um að fá að horfa á hina sívinsælu og ofbeldisfullu þætti - Squid Game. Hann segir mikilvægt að samtal fari fram um skaðsemi ofbeldisfulls efnis.

Féllu ekki í kramið hjá gagnrýnendum

Velgengni þáttanna á heimsvísu virðist hafa komið fólki í Suður-Kóreu á óvart. Gagnrýnendur þar í landi voru ekki sáttir við Squid Game og nefndu margar ástæður.

Þeim fannst persónurnar ótrúverðugar og klisjukenndar, söguþráðurinn óáhugaverður og ofbeldið fór sömuleiðis í taugarnar á þeim. Samkvæmt frétt Economist gagnrýndu þeir einnig þættina fyrir að líkjast kvikmyndum eins og Battle Royale of mikið.

Gagnrýnendur lofuðu þættina þó fyrir hönnun og sviðsmyndir.

Nágrannar Suður-Kóreu í norðri hafa tekið þáttunum fagnandi. Þó íbúar Norður-Kóreu geti verið teknir af lífi fyrir að horfa á Squid Game segja yfirvöld þar að þættirnir séu allegóría fyrir ógeðfellt og stéttaskipt samfélag Suður-Kóreu. Þættirnir endurspegli samfélagið í Suður-Kóreu og spillinguna þar.

Ekki bara vinsælir til áhorfs

Squid Game eru ekki bara vinsælir þættir til áhorfs, heldur ná áhrif þeirra yfir í aðra miðla. Þúsundir myndbanda sem tengjast Squid Game hafa verið birt á samfélagsmiðlum og fjöldi greina um þættina hafa verið skrifaðar á fjölmiðlum, þó fáar jafnist á við þessa.

Þar að auki eru kaffihús um allan heim byrjuð að selja sælgæti eins og sjá má í þáttunum og er verið að skipuleggja raunverulegan smokkfiskaleik í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þar stendur þó ekki til að myrða fólk sem tapar barnaleikjunum sem keppa á í og verðlaunin eru ekki fúlgur fjár.

Tengja við persónurnar og eiga erfitt með að horfa

AP fréttaveitan segir þættina hafa snert taug í Suður-Kóreu og á svipaðan hátt og kvikmyndin Parasite gerði um árið. Í Suður-Kóreu hafi skuldir farið hækkandi, störfum fækkandi og ójöfnuður hafi aukist til muna á undanförnum árum.

Seong Gi-hun, aðalpersóna þáttanna, er spilafíkill sem var rekinn úr starfi sínu hjá bílaframleiðanda. Áður en hann ákveður að taka þátt í Squid Game er hann barinn af okurmangara og þvingaður til að skrifa undir skjal sem gefur þeim drullusokki rétt til að fjarlægja líffæri úr Seong.

Þrjár aðalpersónur Squid Game.AP/Youngkyu Park

Blaðamaður AP ræddi við mann sem var rekinn úr svipuðu starfi árið 2009, auk um 2.600 annarra. Sá maður heitir Lee og átti hann í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og glímdi við þunglyndi um árabil. Margir fyrrverandi samstarfsmenn hans sviptu sig lífi.

Honum reyndist erfitt að horfa á mörg atriðið þáttanna. Annar maður sem vann með Lee á árum áður sagðist ekki hafa getað horft á meira en einn þátt.

Fréttaveitan segir Squid Game vera einn nokkurra sjónarvarpsþátta og kvikmynda frá Suður-Kóreu sem séu til komnir vegna versnandi efnahagslegs ástands þar í landi.

Þá þykir persónan Ali varpa ljósi á undirhlið hagkerfis Suður-Kóreu. Ali er frá Pakistan en hann fluttist ólöglega til Suður-Kóreu til að vinna sér inn peninga. Hann hefur misst nokkra fingur í verksmiðjuvinnu sinni og yfirmaðurð hans neitar að borga honum. Ali er sagður táknmynd þess hvernig komið er fram við fátækt fólk frá öðrum ríkjum Asíu.

Hver margir myndu keppa í alvörunni?

Einn viðmælandi New York Times segir Squid Game sýna kaldhæðnina í því hve mikill þrýstingur er á fólki að standa sig vel fjárhagslega í Suður-Kóreu og hver erfitt það er í rauninni. Shin Yeeun segir gífurlega erfitt fyrir ungt fólk að fá vinnu um þessar mundir.

Efnahagsleg vandræði ungs fólks hafa leitt til mikillar lækkunar fæðingartíðni í Suður-Kóreu. Margt ungt fólk telur það allt of dýrt að eignast börn.

Shin segir alla vilja senda börnin sín í bestu skólana og til þess þurfi að búa í bestu hverfunum. Þetta kosti allt mikinn pening og sé óraunhæft markmið.

Þetta hafi leitt til þess að ungt fólk sé sífellt að leita leiða til að eignast mikið af peningum á stuttum tíma. Hvort sem það er í gegnum fjárhættuspil eða fjárfestingar í rafmyntum.

„Ég velti fyrir mér hve margir myndu keppa ef Squid Game yrði haldið í alvörunni," sagði Shin.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×