Innlent

Tillaga um að afnema gjaldtöku fyrir aukaverk presta fallið í grýttan jarðveg

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Séra Arnaldur A. Bárðarson, kjaramálafulltrúi prestafélagsins.
Séra Arnaldur A. Bárðarson, kjaramálafulltrúi prestafélagsins. Aðsend

Kirkjuþing fer fram í næstu viku en tillaga hefur nú verið borin upp, sem snýr að því að að afnema gjaldtökur fyrir aukaverk presta. Meðal aukaverka presta eru útfarir og hjónavígslur.

Tillagan hefur fallið í grýttan jarðveg en þrjár harðyrtar umsagnir presta um tillöguna bárust fulltrúum kirkjuþings. 

Sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls, séra Þorgeir Arason, gerir alvarlegar athugasemdir við tillöguna: „Með þessari tillögu er einfaldlega gert ráð fyrir að þessi hluti af launakjörum presta sé felldur niður og hvergi getið um að nokkur önnur kjarauppbót komi í staðinn. Ekki veit ég um neina starfsstétt með snefil af sjálfsvirðingu sem myndi fella sig við slíkt."

Þá segir séra Sigurður Grétar Sigurðsson, prestur í Útskálaprestakalli, að „engin stétt geti fallist á kjaraskerðingu eins og hér er boðuð,“ og að kristilegur kærleikur sé ekkert minni í þjónustunni þó að prestur fái laun fyrir.

Tímaskekkja að prestar sendi fólki reikning

Séra Arnaldur A. Bárðarson, prestur og kirkjumálafulltrúi prestafélagsins, er höfundur þriðju umsagnarinnar. Hann segir í samtali við fréttastofu að koma þurfi til móts við presta í staðinn.  Gjaldtakan sé ævaforn og að gert sé ráð fyrir henni í núgildandi kjarasamningum.

Flutningsmenn tillögunnar telja hins vegar æskilegt og löngu tímabært að fella brott greiðslurnar sem innheimtar eru fyrir prestsþjónustu. Þjónusta kirkjunnar eigi að vera án hindrana og það sé tímaskekkja að prestar sendi fólki reikning á gleði- og sorgarstundum fyrir veitta þjónustu.

Segir gjaldið lágt

Gjald fyrir aukaverk presta er mismunandi eftir þjónustu hverju sinni en sem dæmi kostar útför 27.552 kr. og hjónavígsla 13.776 kr. Aðspurður telur Arnaldur að gjaldið hindri fólk ekki í að sækja sér guðsþjónustu.

„Nei, ég held það geri það ekki. Gjaldið er lágt. Það er sannarlega lágt. Hins vegar hefur það komið fram í umræðum undanfarin ár að prestar hafa alveg gjarnan viljað hætta að innheimta þessi gjöld en það hefur enginn viljað bæta þeim það í kjörum.“

„Svo eru þarna aðrir liðir þarna eins og til dæmis ferðmingarfræðslugjald upp á 21.000 kr. Það rennur ekki bara beint til presta; það fer í að halda uppi fermingarfræðslunni. Það þarf að launa þar aðstoðarfólk og kaupa þar inn ýmsa sem að því koma, þannig að þetta er ekki alveg svona klippt og skorið. Að þarna séu einhverjar aukatekjur beint til prestanna. Þetta er ekki þannig," segir Arnaldur.

Tillagan komi á slæmum tíma

Arnaldur telur þar að auki að tillagan komi á slæmum tíma en prestar samþykktu nýlega kjarasamning við Þjóðkirkjuna. Sá samningur gildir fram til 23. mars árið 2023 en í kjarasamningnum er gert ráð fyrir heimild til að innheimta greiðslur vegna aukastarfa. Aukaverkagreiðslurnar byggi á ævagamalli hefð.

„Nú gerist það við síðasta kjarasamning að prestar tóku á sig töluverða kjaraskerðingu. Við fengum 3,5% hækkun sem er helmingur á við það sem opinberir starfsmenn fengu. Þannig það er svolítið mikið högg að taka þetta líka af núna,“ segir Arnaldur.

„Það gæti orðið snúið að finna presta til að annast athafnir á laugardögum til dæmis, eða hitta fólk utan hefðbundins vinnutíma vegna athafna, ef ekkert kemur fyrir. Það er bara með presta eins og flest annað fólk. Fólk kannski er ekki tilbúið í að vinna endalaust kauplaust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×