Enski boltinn

Vieira svekktur fyrir hönd leik­manna sem þurfi þó að læra af mis­tökum sínum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Patrick Vieira var niðurbrotinn eftir jöfnunarmark Arsenal í kvöld.
Patrick Vieira var niðurbrotinn eftir jöfnunarmark Arsenal í kvöld. Sebastian Frej/Getty Images

„Við vorum mjög nálægt sigrinum en við höfum verið að segja það full oft undanfarið,“ sagði Patrick Vieira, þjálfari Crystal Palace, að loknu 2-2 jafntefli sinna manna gegn Arsenal á Emirates-vellinum í Lundúnum.

„Við verðum að læra af þeim leikjum sem við höfum spilað undanfarið. Ég er mjög vonsvikinn vegna þess að liðið átti skilið að vinna eftir að hafa komið til baka í síðari hálfleik.“

„Ég er pirraður fyrir þeirra hönd. Leikmennirnir voru hugrakki og sýndu mikinn karakter. Þess vegna er ég mjög svekktur fyrir hönd leikmanna minna. Við fengum á okkur mörk eftir föst leikatriði, við verðum að vinna betur í því til að það gerist ekki aftur.“

„Við þurfum að rúlla upp ermunum okkar og fórna okkur fyrir málstaðinn. Við vorum virkilega óheppnir í dag en svona er þetta stundum. Ég hef fulla trú á því að það búi meira í þessu liði og við getum gert enn betur,“ sagði Vieira að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×