Enski boltinn

Klopp veit ekki hvort Salah verði áfram hjá Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar einu marka sinna í Meistaradeildinni með þeim Curtis Jones og Jordan Henderson.
Mohamed Salah fagnar einu marka sinna í Meistaradeildinni með þeim Curtis Jones og Jordan Henderson. EPA-EFE/JOSE COELHO

Mohamed Salah á sannarlega sviðið hjá Liverpool liðinu þessa dagana en með frábærri frammistöðu leik eftir leik er hann að gera tilkall til þess að vera besti fótboltamaður heims í dag.

Það eru frábærar fréttir fyrir stuðningsmenn Liverpool en það eru ekki eins góðar fréttir af framtíð Egyptans hjá félaginu. Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp var spurður út í framtíð Salah á blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleik á móti Atletico Madrid í kvöld.

Salah hefur nú skorað í níu af tíu leikjum Liverpool á leiktíðinni og getur skorað í þriðja Meistaradeildarleiknum í röð á Anfield í kvöld. Eftir stórbrotið mark hans og magnaða stoðsendingu í 5-0 sigrinum á Watford í ensku úrvalsdeildinni um helgina þá talað Klopp sjálfur um Salah sem besta leikmann heims.

Liverpool hefur verið að framlengja samninga sína við lykilmenn á þessu ári en hefur enn ekki náð samkomulagi við Salah. Núverandi samningur hans rennur út í júní 2023. Klopp veit ekki hvort frammistaða Salah að undanförnu auki líkurnar á nýjum samningi.

„Ég veit það ekki. Við verðum að sjá til,“ sagði Jürgen Klopp. Klopp taldi hins vegar vera meiri líkur á því að Salah geti unnið Gullhnöttinn í ár.

„Ég hef ekki hugmynd um það hvernig þú ferð af því að vinna Gullhnöttinn. Ef það snýst um að komast í úrslit Meistaradeildarinnar og skora flest mörk þá yrði það erfitt fyrir hann. Ef fólk er að verðlauna frammistöðu manna undanfarin tvö ár þá á hann möguleika að mínu mati,“ sagði Klopp.

„Fær hann núna loksins viðurkenningu? Hann hefur alltaf fengið hana hér innanhúss en ég veit ekki með utanaðkomandi viðurkenningu. Eftir þessi tvö mögnuðu mörk þá heldur fólk allt í einu að hann geti verið besti leikmaður heims og það er frekar skrýtið. Hann hefur skorað svona mörk og spilað á þessu ótrúlega háa stigi í mörg ár,“ sagði Klopp.

„Mínar áhyggjur snúast fyrst og fremst um að hann spili svona aftur og aftur. Ef þið viljið hrósa honum, gerið það endilega því hann á það skilið en núna skilum við undirbúa okkur fyrir Atletico,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×