Enski boltinn

Ástæðurnar fyrir lélegri pressu United-liðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Manchester United virka ráðalausir þegar þeir pressa.
Leikmenn Manchester United virka ráðalausir þegar þeir pressa. getty/Ash Donelon

Ole Gunnar Solskjær leggur litla áhersla á að æfa pressu á æfingum Manchester United. Þetta kemur eflaust engum sem horfir reglulega á liðið á óvart.

United steinlá fyrir Liverpool, 0-5, í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Leikmenn Liverpool áttu ekki í neinum vandræðum með að spila sig í gegnum málamyndarpressu United-manna eins og sást í mörkunum fimm. Fleiri lið hafa leyst pressu United án þess að hafa mikið fyrir því á þessu tímabili.

Í grein The Athletic um ástandið hjá United segir að leikmenn liðsins hafi fengið þau skilaboð frá Solskjær að þeir ættu að pressa framarlega gegn Liverpool en þeir vissu ekki nákvæmlega hvernig þeir áttu að framkvæma pressuna.

Lítil áhersla er lögð á að æfa pressu á æfingum United og aðalskilaboðin eru að maðurinn sem er næst boltanum pressar á meðan hinir bakka og koma sér í stöður. 

Margoft í leik gerist það að leikmenn United hlaupa í átt að andstæðingi til að pressa en engir samherjar fylgja með og restin af liðinu er illa staðsett. Í leiknum gegn Liverpool pressaði Bruno Fernandes oft upp á eigin spýtur og skildi Scott McTominay og Fred eftir gegn þremur miðjumönnum Liverpool.

Þrátt fyrir slæmt gengi að undanförnu og að leikmenn United séu farnir að efast um getu Solskjærs sem stjóra er fastlega búist við því að hann stýri liðinu gegn Tottenham á útivelli á laugardaginn.

United hefur aðeins unnið þrjá af síðustu níu leikjum sínum í öllum keppnum, alla á dramatískan hátt á lokamínútunum.


Tengdar fréttir

Mjög líklegt að Solskjær stýri United gegn Tottenham

Ole Gunnar Solskjær verður áfram knattspyrnustjóri Manchester United, allavega um sinn, og stýrir liðinu gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Leikmenn United hafa þó margir hverjir misst trúna á honum.

Neville heldur að Solskjær verði ekki rekinn

Pressan á Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, eftir tapið stóra fyrir Liverpool verður óbærileg segir Gary Neville. Þrátt fyrir það telur hann að Solskjær verði áfram við stjórnvölinn hjá United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×